Það er gömul saga og ný, að sínum augum lítur hver silfrið, en umræðan um stéttaskiptingu á Íslandi hefur vaknað á ný eftir harkaleg orðaskipti formanns Samtaka iðnaðarins og formanns Eflingar í útvarpsþættinum Vikulokunum á Rás 1 í gær. Hér verður leitast við að kanna hvað stendur á bak við fullyrðingar um stéttlaust Ísland eða stéttaskiptingu hér á landi.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, benti í Vikulokunum á að laun hafi hækkað gríðarlega hér á landi á undanförnum þremur árum, eða frá því síðast var samið á vinnumarkaði. Ekki hafi þá verið innistæða fyrir öllum þessum launahækkunum og fyrir vikið hafi mörg fyrirtæki lent í vandræðum, þurft að draga saman seglin og segja upp fólki.

„Kaupmáttur lægstu launa er þrjátíu prósent hærri en hann var 2015,“ sagði Guðrún og bendir á að laun hafi hækkað hér á landi miklu meira en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Einn meginkostur Íslands hafi verið stéttleysið í gegnum tíðina, að lífsgæðamunur innan þjóðfélagsins sé ekki of mikill.

Með þessum launahækkunum hafi atvinnurekendur spennt bogann til hins ítrasta, í reynd gefið út innistæðulausan tékka, en það hafi verið gert í trausti þess að aðilar vinnumarkaðarins væru ásamt stjórnvöldum að stefna inn í norrænt samningalíkan þar sem áhersla væri lögð á stöðugleika, hóflegar launahækkanir og að kaupmáttur héldi sér með lágri verðbólgu og litlum hækkunum á verðlagi.

Ótrúlegt að fullorðin manneskja haldi þessu fram

Sessunautur Guðrúnar í Vikulokunum var formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, sem komið hefur eins og stormsveipur inn í þjóðmálaumræðuna að undanförnu með áherslum sínum á aðbúnað og stöðu hinna verst settu. Óhætt er að segja að hún sé ósammála Guðrúnu um að Ísland sé stéttlaust land.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar / Mynd: Sósíalistaflokkurinn.

Á fébókarsíðu sinni segir Sólveig Anna:

„Ég verð að viðurkenna að ég varð eiginlega orðlaus. Mér fannst ótrúlegt að fullorðin manneskja væri að halda þessu fram. Afþví að þetta er svo augljóslega ósatt,“ segir hún og nefnir að 40% félagsmanna Eflingar búi í leiguhúsnæði og sá hópur fari stækkandi milli ára. Könnun Íbúðalánasjóðs sýni að fólki leigi húsnæði af því að það hafi einfaldlega ekki efni á að eignast eigið húsnæði.  Jafnframt komi fram að þeir leigjendur sem hafa lægstu tekjurnar hafa flutt oftast. Rúmlega helmingur lágmarkslauna, eða 51%, sé nú skattlagður að fullu, fjármagnatekjuskattur hér á landi sé 22% og árið 2016 hafi laun þingmanna hækkað um ríflega 44%.

„Í alvöru talað: Hvernig í ósköpunum er hægt að trúa svona ótrúlegri vitleysu?,“ spurði Sólveig Anna.

Meiri jöfnuður hér en í Danmörku og Svíþjóð

En spyrja má? Hefur ójöfnuður aukist hér á landi? Margt bendir til að svo sé alls ekki.

Í fyrra var tilkynnt að Ísland er í fjórða sæti lista Alþjóðaefna­hags­ráðsins (World Economic For­um) yfir lönd með mest­an jöfnuð. Ísland er jafn­framt það land sem hef­ur hækkað mest á list­an­um und­an­far­in fimm ár sam­kvæmt sam­an­tekt ráðsins ásamt Ísra­el og Nýja-Sjálandi. 

Norður­lönd­in eru áber­andi á list­an­um en Nor­eg­ur trón­ir á toppn­um með sín „háu lífs­gæði, ár­ang­urs­ríkt vel­ferðar­kerfi og lág­an ójöfnuð,“ eins og seg­ir. Þá er talað um sterk­an fé­lags­leg­an hreyf­an­leika, lít­il at­vinnu­leysi og hátt hlut­fall kvenna á vinnu­markaðinum.

Lúx­em­borg og Sviss eru í öðru og þriðja sæti en Ísland því fjórða eins og fyrr seg­ir. Þar á eft­ir koma Dan­mörk, Svíþjóð og Hol­land. Með öðru orðum: Það er meiri jöfnuður hér á landi en í velferðarsamfélögum Dana og Svía.

Skýrslan leiðir einnig í ljós,   að á Íslandi er at­vinnu­leysi minnst hjá lönd­un­um þrjátíu sem fjallað er um í skýrsl­unni og þá er fá­tækt minnst hér á landi sömu­leiðis.

Landsmenn vilja stöðugt verðlag

Og hvernig kjarasamninga vilja landsmenn sjá? Mun fleiri landsmenn eru hlynntir en andvígir kjarasamningum þar sem lögð er meiri áhersla á stöðugt verðlag en launahækkanir. Tæplega tveir af hverjum þremur hafa áhyggjur af mikilli verðbólgu. Þetta kom fram í könnun sem Gallup gerði fyrir Samtök atvinnulífsins í september sl.

Þar kom fram að helmingur landsmanna er hlynntur kjarasamningum þar sem meiri áhersla er lögð á stöðugt verðlag og minni áhersla á launahækkanir en fjórðungur er andvígur slíkum samningum. Fjórðungur er hvorki hlynntur né andvígur. Niðurstöður könnunarinnar sýna afdráttarlaust að Íslendingar eru ekki tilbúnir  til að fórna ávinningi stöðugs verðlags með launahækkunum sem setja verðbólgu á skrið.

Stytting vinnutíma er mikilvægasta málið í komandi kjaraviðræðum að mati Íslendinga en því næst koma hófstilltar launahækkanir.

Allt fer annars til fjandans í vetur

Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, sagði á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, að erfiðir tímar séu framundan fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vegna undiröldu kjarasamninga og kjara í samfélaginu.

Styrmir Gunnarsson.

„Mjög sterk tilfinning er hjá fólki um að þjóðfélagið sé að skiptast í tvennt. Þeir sem eru í aðstöðu til tryggja sína hagsmuni og skilja hina eftir“, sagði Styrmir. Finna megi fyrir þessum tóni í samfélaginu og unga fólkið í ríkisstjórninni þurfi að átta sig á þessu, annars fari allt til fjandans í vetur.

„Efnamunurinn má ekki verða of mikill, þetta fór gersamlega úr böndum á fyrstu árum nýrrar aldar, gersamlega klikkað ástand. Ég er ansi hræddur um að tilfinning fólks sé sú að, þrátt fyrir hrunið, sé þróunin hafin að nýju,“ sagði Styrmir.

Viðtekin hugmynd að Ísland sé stéttlaust

Félagsfræðingurinn Guðmundur Oddsson hefur rannsakað viðhorf og hugmyndir Íslendinga um stéttaskiptingu. Hann segir að lengi vel hafi það verið viðtekin hugmynd að Ísland væri tiltölulega stéttlaust land.

Guðmundur Oddsson félagsfræðingur.

„Það má eflaust rekja þessa hugmynd alveg til landnáms. Víkingarnir töluðu um að þeir væru allir jafnir – en þetta var auðvitað í hrópandi mótsögn til dæmis við það að þeir héldu þræla. Hér hefur því alltaf verið stéttaskipting. Í gamla íslenska landbúnaðarsamfélaginu var stéttaskiptingin mjög svipuð og á öðrum Norðurlöndum. Það var gríðarlegur munur á kjörum ríkra bænda og svo hjúa og leiguliða – svo ég tali nú ekki um niðursetninga. Á fyrri hluta 20. aldarinnar þegar iðnaðarsamfélagið fór að skjóta rótum var svo mikill munur á kjörum verkafólks og atvinnurekenda.

Stéttaskiptingin á Íslandi hefur því verið svipuð og á hinum Norðurlöndunum en vissulega minni en víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum. Þetta sést á hlutlægum vísum eins og til dæmis tölum um tekjuójöfnuð, en hann hefur lengst af verið mjög lítill. Frá miðjum tíunda áratugnum og fram að hruni varð hins vegar gríðarleg aukning. Á mjög skömmu tímabili, frá 1995 til 2007, fór Ísland frá því að vera jafnast Norðurlandanna til þess að vera með ójöfnustu tekjuskiptinguna. Frá miðjum tíunda áratugnum varð Ísland því mun stéttskiptara þjóðfélag en það hafði áður verið í efnahagslegu tilliti,“ sagði hann í viðtali við DV.

Átök fyrir utan bæjarstjórnarfund í Góðtemplarahúsinu (Gúttó) árið 1932. Iðnó, sést til vinstri í bakgrunni.

Aukinn sýnileiki útrásarvíkinganna

Í fræðigrein í The Sociological Quarterly rekur Guðmundur hvernig umræður um stéttir og stéttaskiptingu á hinu pólitíska sviði, bæði í Morgunblaðinu og á Alþingi, breyttust frá 1986 og til 2012.

„Í upphafi þessa tímabils voru það álitin sjálfsögð sannindi að Ísland væri tiltölulega stéttlaust þjóðfélag. Ég segi „tiltölulega“ því Íslendingar áttuðu sig alveg á því að hér væri einhver ójöfnuður en stéttaskipting var álitin það lítil að það tæki því varla að tala um hana. Frá miðjum níunda áratugnum byrjar efnahagslegur ójöfnuður og ekki síst tekjuójöfnuður hins vegar að aukast mjög hratt.

Þetta var mesta aukning tekjuójafnaðar nokkurs OECD-ríkis á þessu tímabili. Þetta hafði mikil áhrif á umræðuna í samfélaginu. Með auknum ójöfnuði og tilkomu og sýnileika þverþjóðlegra kapítalista – útrásarvíkinganna – fór að fjara undan hugmyndinni um stéttleysi Íslands. Jafnvel fleiri en vinstri flokkarnir fóru að tala um Ísland sem stéttskipt samfélag, án nokkurra fyrirvara.“

Guðmundur Magnússon.

Þrjár þjóðir í landinu

Í bókinni Nýja Ísland eftir sagnfræðinginn Guðmund Magnússon, sagði í kaflanum „Bilið breikkar“:

„Stundum er sagt að svo mikill munur sé orðinn á lífskjörum fólks hér á landi að tala megi um að þrjár þjóðir búi í landinu: fátækt fólk, millistétt, sem allur þorri landsmanna telst til, og auðstéttin nýja, kannski eitt til tvö prósent af þjóðinni, sem þjóðfélagsbreytingin frá miðjum tíunda áratugnum hefur skapað“.

Síðan varð hrun og efnamunur minnkaði mjög, auðvitað fyrst og fremst vegna þess að fólk í efsta laginu tapaði svo miklum fjármunum.

Nýjar tölur sýna að jöfnuður hefur sjaldan verið meiri hér á landi, en samt lifir sú saga góðu lífi að stéttaskipting hafi aukist. Gífurlegir erfiðleikar margra á húsnæðismarkaði leika þar vafalaust stóra rullu. Og líklega mun sú fullyrðing verða mjög áberandi við samningaborðið í komandi kjarabaráttu. Eða verkfallsátökum, ef út í það er farið.