Sá óvenjulegi viðburður átti sér stað í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun, að engin fyrirspurn barst fjármála- og efnahagsráðherra, þrátt fyrir að Bjarni Benediktsson væri viðstaddur og þess albúinn að grípa til andsvara. Viljinn hefur heimildir fyrir því að stjórnarandstaðan hafi tekið sig saman um að láta sem fjármálaráðherra væri ekki viðstaddur, þar eð Bjarni lýsti því yfir fyrr í vikunni að hann hygðist segja af sér í kjölfar á áliti Umboðsmanns Alþingis.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði í upphafi þingfundar að nú sé komið í ljós að tíðindin af blaðamannafundi fjármálaráðherra hafi auðvitað aldrei verið afsögn heldur bara hvaða ráðherrastóll biði hans. „Eftir meinta afsögn tók ekki annað við en nýr dagur í Stjórnarráðinu og ný ráðherrastóll. Núverandi forsætisráðherra segir að hún treysti engum betur en Bjarna. Kannski hún taki þá undir það sem Sjálfstæðismenn segja núna í fjölmiðlum, að eðlilegast sé að Bjarni Benediktsson taki bara við stól forsætisráðherra,“ sagði hún og vísaði þar til ummæla Sigríðar Á. Andersen, fv. dómsmálaráðherra, í Dagmálum á mbl.is í morgun.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, kvaðst undrast „óþroskaða pólitík“ Sjálfstæðisflokksins. „Mér finnst þetta bara að vera vandræðalegt. Mér finnst vandræðalegt hvað pólitík Sjálfstæðismanna er óþroskuð og einhvern veginn ótrúlega skammsýn. Ég skil ekki alveg hvað við erum að gera með því að bjóða upp á fráfarandi fjármálaráðherra hérna í óundirbúnum fyrirspurnum. Hvað á ég að spyrja ráðherra út í? Út í fjármál ríkisins? Út í verðbólguna? Út í verkföllin sem eru að fara að koma? Er hann að fara að svara því? Hann á að vera hættur í þessu embætti. Af hverju er hann hérna? Hverju er hann að fara að svara mér? Hvað er hann að fara að tala um? Þetta er svo óþroskað. Þetta er svo skammsýnt og asnalegt og þetta grefur undan trausti fólks á lýðræðinu,“ sagði hún.