Fyrrum forstjóri Scania óttast borgarastyrjöld í Svíþjóð

Leif Östling, f.v. forstjóri sænska vörubílaframleiðandans Scania.

Fyrrum forstjóri sænska vörubílaframleiðandans Scania hefur varað við því að í Svíþjóð stefni í borgarastyrjöld vegna stjórnlausrar innflytjendastefnu. Í viðtali við Swebbtv, sagði kaupsýslumaðurinn Leif Östling að koma mikils fjölda aðkomumanna, sem ekki hafi tekist að aðlagast sænsku samfélagi, væri að skapa frjóan svörð fyrir öldu ofbeldis.

„Við höfum tekið við alltof mörgum aðfluttum í einu. Þeir sem koma frá Miðausturlöndum og Afríku eru úr samfélögum eins og Svíar uxu upp úr fyrir tæpum hundrað árum,“ sagði hann. Sívaxandi alda sprenginga og sprengjuárása ríður nú yfir í mörgum sænskum borgum, sbr. til dæmis umfjöllun Dagens Nyheter, sem greindi frá 120 sprengingum fyrstu sex mánuði ársins. Kynferðisárásir og ofbeldisbrot fara þar einnig vaxandi, en fjölmiðlar hafa fjallað um hvorttveggja, og Danmörk vill herða landamæraeftirlit vegna fólks sem ferðast á milli landanna vegna þessa.

Marga skortir arfleifð og þekkingu til starfa í Svíþjóð

Östling undirstrikaði vandamál varðandi samþættingu, með því að ræða eigin reynslu af því að reka Scania, þar sem að um níutíu af hundrað sómölskum farandverkamönnum, sem ráðnir voru til starfa hjá fyrirtækinu, voru reknir eða hurfu sjálfviljugir vegna þess að þeir gátu ekki mætt á réttum tíma eða starfað í teymum.

Hann telur að „þekkingarflutningur“ sé nauðsynlegur fyrir innflytjendur til að verða virkir þátttakendur í sænsku samfélagi – og gæti tekið kynslóðaskipti til að ná. Kaupsýslumaðurinn kvaðst vona að hægt yrði að bæta úr þessum vandamálum innan tíu ára, en ef ekki, gæti borgarastyrjöld orðið í kjölfar þess, og að ræsa yrði herinn út til að takast á við ofbeldi og ólgu á helstu búsvæðum aðfluttra.