Gengur þvert gegn öllu því sem Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir og verja

Arnar Þór Jónsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að fyrirheit sem gefin voru á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokkins um að lagafrumvarp um bókun 35 við EES-samninginn yrði ekki lagt fram aftur, hafi verið svikin.

„Þrátt fyrir allar aðvaranir, þrátt fyrir augljósa mótstöðu innan flokksins, þrátt fyrir að efni frumvarpsins brjóti gegn 1. og 2. gr. stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að það gangi gegn kjarnagildum Sjálfstæðisflokksins og sé til þess fallið að hrekja traustustu kjósendur flokksins frá borði, þá hyggst varaformaður flokksins halda sínu striki og freista þess að knýja frumvarp þetta í gegnum þingið með stuðningi þingflokks Sjálfstæðisflokksins,“ segir Arnar Þór á vefsíðu sinni í morgun.

Bókun 35 er svohljóðandi: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“

Eins og Viljinn greindi frá í vikunni, birti ríkisstjórnin þingmálaskrá sína um leið og forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína. Þar kom fram að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra muni í október nk. leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum (bókun 35).

„Má af þessu álykta sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé í framkvæmd eitthvað allt annað en hann gefur sig út fyrir að vera? Frumvarpið sem hér um ræðir gengur þvert gegn öllu því sem Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir og verja. Frumvarpið gengisfellir íslenskt lýðræði. Það er í anda stjórnlyndis en ekki frjálslyndis. Það innleiðir ráðríkisstjórnmál og gefur erlendu sambandsríki færi á ofríkistilburðum gagnvart íslenska lýðveldinu. Það horfir fram hjá þeirri staðreynd að Ísland hefur aldrei beitt neitunarvaldi í 30 ára sögu EES samningsins, þannig að fyrirkomulagið stendur í reynd ekki undir nafni sem samstarf, heldur ber öll einkenni einhliða valdboðs frá Brussel þar sem hlutverk Íslands er að borga og hlýða.

Ætli varaformaður Sjálfstæðisflokksins að halda sínu striki og mæla fyrir þessu frumvarpi á ný í október er þar með verið að undirstrika að flokkurinn er ekki andvígur aðild Íslands að ESB nema i orði kveðnu, því í reynd væri með þessu stigið risaskref í átt til þess að færa Ísland undir áhrifavald ESB.

Síðast en ekki síst afhjúpast þá um leið að Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki undir nafni sem íhaldsflokkur, sem vill verja þau gildi sem best hafa reynst og vísað er til í ofangreindum tilvitnunum af heimasíðu hans um stefnumál af ætt lýðræðis, sjálfsákvörðunarréttar einstaklinga og þjóðar, auk annarra atriða sem ættu að heita sjálfsögð, svo sem að sjálfstæði Íslands sé styrkt en ekki gengisfellt í alþjóðlegu samhengi. Þá er Sjálfstæðisflokkurinn orðinn nýjabrumsflokkur sem þjónar ekki lengur hlutverki sínu.

Þá er hann orðinn úlfur í sauðargæru sem ekki stendur lengur undir nafni sem sjálfstæðisflokkur. Ef þetta er einbeittur vilji forystu og núverandi þingflokks Sjálfstæðisflokksins munu þau þurfa að taka ábyrgð á því tjóni sem þetta mun valda flokknum og lýðveldinu okkar,“ segir varaþingmaðurinn ennfremur í harðorðum pistli sínum.

Arnar Þór er formaður Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) sem lagði svofellda tillögu fyrir flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins í ágústlok:

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hvetur utanríkisráðherra til að draga til baka frumvarp til laga um breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 (bókun 35).

Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um fullveldi Íslands og frelsi þjóðarinnar til að setja sín eigin lög án ytri þvingunar.

Tillagan kom ekki til atkvæða á fundinum, heldur var samþykkt í almennri ályktun að Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um fullveldi þjóðarinnar. Arnar Þór sagði eftir fundinn að hann hefði verið fullvissaður með því að ekki standi til að leggja frumvarpið aftur fram. Ljóst er að við það hefur ekki verið staðið.