Óhætt er að segja að þingmenn Viðreisnar og Miðflokksins hafi hent á lofti yfirlýsingar Jóns Gunnarssonar á Bylgjunni í morgun um að hann treysti ekki ríkisstjórninni til að leysa úr neyðarástandi í orkumálum, annað þurfi til nýjan meirihluta í þinginu eða kosningar. Umræðan varð á köflum heldur neyðarleg fyrir orkumálaráðherrann Guðlaug Þór Þórðarson, sem hélt því fram að allt væri í fullum gangi í orkumálum undir hans stjórn sem er í algerri þversögn við það algjört stopp í virkjunarmálum um langt árabil og margháttaðar yfirlýsingar þingmanna Sjálfstæðisflokksins að undanförnu.
„Í raun er staðan sú að eini Sjálfstæðismaðurinn á Íslandi sem telur allt á fullu í orkumálum er ráðherra orkumála. Hann virðist vera undir hælnum á Landvernd og pólitískum armi félagsins, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, og því hef ég ákveðið fyrir hönd þingflokks Miðflokksins, eftir samráð við þingflokkinn í heild sinni, að lýsa yfir stuðningi þess efnis að Miðflokkurinn mun styðja við öll þau mál sem ríkisstjórnin leggur fram sem verða til þess að auka orkuöryggi í landinu, styðja við framleiðslu grænnar orku þannig að við komumst úr sporunum.
Þessi kyrrstaða sem hæstv. orkumálaráðherra virðist telja bara vera á ágætisstað gengur ekki mikið lengur. Ég ítreka: Þingflokkur Miðflokksins mun styðja við þau mál sem fram koma og ég kannski ítreka spurninguna sem fram kom: Eru einhver mál sem hafa verið stoppuð?“ sagði Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tók í sama streng. Sagði hún Guðlaug Þór kominn „í ákveðið öngstræti“ með orkumálin:
„Ég vil undirstrika það að Viðreisn er tilbúin til að gera það sem þarf til að koma okkur áfram, koma okkur úr því neyðarástandi sem m.a. þungavigtarmaður í Sjálfstæðisflokknum, Jón Gunnarsson, benti svo rækilega á. Það sem hann segir augljóslega er að það eru alvarlegir brestir í ríkisstjórninni og það er stöðnun í kerfinu og hann treystir ekki ríkisstjórninni til að leysa þessi verkefni. Ég held að það sé einfaldlega þannig að ráðherra og ríkisstjórn þurfi þá að leita eftir meiri hluta hér í þinginu til að halda áfram og við í Viðreisn erum reiðubúin í það samtal, við erum reiðubúin í þá liðveislu.“
Bætti Þorgerður Katrín því við, að örugglega hafi ekki verið léttvægt fyrir Jón Gunnarsson að draga fram raunveruleikann í þessu máli. „Hann er í meiri hluta í þinginu og þarf að styðja þessa ríkisstjórn. Við stöndum frammi fyrir algjörri kyrrstöðu í orkumálum, algjörri, þannig að ég bið bara fólk um að fara ekki að snúa þessu upp í einhverja kerskni. Málið er grafalvarlegt og okkur í þinginu ber að mynda hér meiri hluta sem kemur okkur áfram og úr þessari kyrrstöðu og upp úr þessum hjólförum sem við erum föst í þegar kemur að orkuöryggi heimilanna í landinu.“