„Lokað búsetuúrræði“ eða flóttamannabúðir er eini kosturinn til að bregðast við vanda þeirra sem fá synjun um dvalarleyfi en vilja ekki yfirgefa landið var meðal þess sem Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði í Kastljósi í gær um mál þeirra hælisleitenda sem hafa ekki viljað yfirgefa landið eftir að umsóknum þeirra um vernd var hafnað og eru nú komin á götuna. Sveitarfélög og ríki hafa deilt með mismunandi lagaálitum um hver beri ábyrgð á þessum hópi fólks.
Guðrún var grjóthörð í vörn sinni fyrir breytt útlendingalög sem samþykkt voru á Alþingi í vor. Hún vill bæta í á haustþingi og kynna útfærslu á flóttamannabúðum sem hún reyndar kallaði ekki svo, heldur „lokað búsetuúrræði“ og benti á að öll ríkin innan Schengen, þar á meðal Norðurlöndin, hafi farið þá leið. Hún sé mildari en núgildandi heimildir íslenskra yfirvalda um að hneppa fólk í varðhald sem ekki hlýðir brottvísun. Slíkt varðhald geti meðal annars falist í mestu öryggisgæslu sem til er innan um dæmda glæpamenn á Hólmsheiði.
Í máli ráðherra kom fram að finna þurfi skammtímalausn á því hvað gera eigi með þá sem dvelja hér lengur en 30 daga eftir synjun og missa þess vegna rétt til þjónustu frá hinu opinbera.
„Það lá alveg ljóst fyrir þegar þessi lög voru samþykkt í mars á þessu ári, að þegar fólk er búið að fá synjun í gegnum sanngjarna málsmeðferð, þá hefur fólk 30 daga til að yfirgefa landið enda er það þá eftir þann tíma í ólögmætri dvöl. Það lá alltaf fyrir að fólk myndi missa þessa þjónustu. Þess vegna getur það ekki verið markmið þessara laga að þegar þessi 30 daga frestur er liðinn og fólk missir þjónustuna, að það eigi að fara að veita þjónustuna einhvers staðar annars staðar. Þjónustan hefur verið veitt í 30 daga eftir synjun, af ríkinu. Og þá ber sveitarfélögum ekki skylda til þess að grípa fólk og veita þjónustu á hinum endanum. Og svo ætlast sveitarfélögin til að ríkið greiði síðan aftur. Það hlýtur hver að sjá að þetta gengur ekki upp svona.“ sagði dómsmálaráðherra.