Theresa May, forsætisráðherra Breta, sagði í samtali við BBC sunnudaginn 6. janúar að gengið yrði til atkvæða um Brexit-tillögur, úrsögn úr ESB, hennar í breska þinginu. Hún mundi vinna að því að fá frekari „tryggingar“ frá ESB en ekki yrði haggað við fyrirliggjandi samkomulagi.
Í samtalinu við sjónvarpsmanninn Andrew Marr áréttaði May að þingumræður um Brexit hæfust næstu daga og „efnisleg atkvæðagreiðsla“ um málið færi fram í neðri deild þingsins í vikunni sem hefst mánudaginn 14. janúar. Atkvæðagreiðslan átti að vera í desember en May frestaði henni vegna andstöðu þingmanna við tillögur hennar um hvernig staðið skuli að skilnaðinum við ESB.
„Ég vil að þetta samkomulag verði samþykkt. Verði ekki greidd atkvæði um það erum við í raun komin á ókannaðar slóðir“ sagði forsætisráðherrann. „Hættan er að við sitjum upp með alls ekkert Brexit [samkomulag].“
Theresa May útilokaði ekki að atkvæðagreiðslunni yrði frestað að nýju. Hún vildi ekki heldur útiloka að hugsanlega yrði gengið til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún sagði hins vegar að það yrði ekki skref fram á við og með því að efna til hennar yrði ákvörðun fólksins í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016 sýnd „óvirðing“.
May varðist gagnrýnendum sínum með því að hvetja þá til að kynna aðra leið en þá sem hún hefði mótað með samkomulagi sínu við ESB. „Til þessa hefur enginn kynnt neinn annan kost en þennan í öllum þessum málum,“ sagði hún.
„Varnaglinn“ svonefndi sem á að koma í veg fyrir að stranga landamæravörslu milli Norður-Írlands og Írska lýðveldisins hefur mælst sérstaklega illa fyrir hjá harðlínu Brexit-sinnum innan Íhaldsflokksins.
May fór í saumana á því sem ríkisstjórnin ætlaði að gera á næstu vikum. Nefndi hún sérstaklega þrjú atriði: landamærin á Írlandi; aukinn hlut breska þingsins í frekari viðræðum við ESB og frekari tryggingar frá ESB varðandi eðli framtíðar samkiptanna.
„Af hálfu ESB hefur verið tekið af skarið um að þetta er það samkomulag sem er í boði,“ sagði forsætisráðherrann. „Þegar kemur að því að þingmenn greiða atkvæði verða þeir að spyrja hvort það sé í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, hvort það tryggi störf og öryggi, hvort það skapi stöðugleika fyrir fyrirtæki og almenning í framtíðinni. Svarið er, já!“
Hún gaf ekkert upp um það hvort hún mundi segja af sér sem forsætisráðherra tapaði hún Brexit-atkvæðagreiðslunni. Hún hefði hins vegar sagt þingmönnum sínum að hún mundi ekki rjúfa þing og efna til „skyndikosninga“ auk þess sem hún mundi ekki leiða flokkinn í kosningum að loknu kjörtímabilinu árið 2022.
Þegar hún var spurð hvort hún yrði áfram forsætisráðherra í „nokkra mánuði eða ár“ sagði May: „Ég ætla ekki að taka þátt í þessum leik.“
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Breta, sagði fyrr þennan sama sunnudag við Sky News að hann vonaði að líkur á því að þingmenn samþykktu skilnaðarsamninginn hefðu aukist. Þingmenn hefðu átt þess kost að ræða við kjósendur í kjördæmum sínum. Þeir hlytu að hafa orðið varir við það sama og hann sjálfur, að fólk vildi ljúka málinu.
vardberg.is –birt með leyfi.