Hafnar því að væntanleg reglugerð WHO ógni fullveldi eða brjóti gegn stjórnarskránni

Ekki hefur komið til þess að Ísland geri sérstaka fyrirvara við fyrirhugaða reglugerð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um hvernig takast má á við heimsfaraldra framtíðarinnar, þar sem lokavald til ákvarðana hér á landi verður áfram í höndum Alþingis og allar aðgerðir þurfa að vera í samræmi við stjórnarskrána, sagði Willum Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra á þingi í dag.

Hann svaraði þar fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, Miðflokki, um umrædda reglugerð sem tekur senn gildi, en töluverð umræða hefur skapast um hana að undanförnu og komið fram áhyggjur af því með henni verði vald framselt til erlendrar stofnunar. Spurði Bergþór út í samskipti íslenskra stjórnvalda við WHO, í tengslum við uppfært regluverk sem þaðan kemur, sem snýr annars vegar að alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni og hins vegar því sem er í daglegu tali kallað, Pandemic Treaty eða Pandemic Accord, CA+, Zero Draft.

Heilbrigðisráðherra sagði Ísland aðila að störfum WHO eins og aðrar þjóðir og alþjóðaheilbrigðisreglugerðin væri þar undir. Auk þess væri í vinnslu nokkurs konar „sameiginleg sýn á það hvernig við tökumst á við faraldra inn í framtíðina“, það sem á ensku er kallað Pandemic Treaty.

Bergþór Ólason.

„Það er á vinnslustigi og það sem ég veit um þann sáttmála er að það verður alltaf val hvernig við tökumst á við þær kringumstæður sem koma upp og þá út frá þeim lögum og reglum og stjórnarskrá sem við fylgjum,“ sagði ráðherrann ennfremur og kvaðst ekki telja að yfirvofandi væru breytingar á heildarreglugerðinni sem færðu WHO völd yfir ákvörðunum sem þyrfti að taka í íslensku heilbrigðiskerfi.

„Það er ekki þannig. Stefnumótunin á sér ekki stað þar. Stefnumótunin á sér stað hér og við fylgjum henni og við fylgjum íslenskri stjórnarskrá og við fylgjum íslenskum lögum og við tökum ákvarðanir hér á Alþingi um það sem við viljum sjá í íslensku heilbrigðiskerfi. Það er staðfest og ég hef spurt eftir því,“ bætti heilbrigðisráðherra við og sagði svo:

„Varðandi það hvort einhverjir fyrirvarar hafa verið gerðir þá held ég að það hafi ekki verið þörf á að gera neina sérstaka fyrirvara vegna þess að öll ákvarðanataka er hér hjá þinginu, hinu íslenska Alþingi. Það stendur alveg fast.“