Hafnarfjarðarbær verður með skilnaðarráðgjöf

Frá undirritun samkomulagsins í gær. Mynd/Stjórnarráðið

Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, og bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, Rósa Guðbjartsdóttir, rituðu í gær undir samkomulag um þátttöku bæjarins í tilraunaverkefni á vegum ráðuneytisins um framkvæmd skilnaðarráðgjafar. Frá þessu segir á vef Stjórnarráðsins í dag.

Hafnarfjarðarbær mun því, í samstarfi við ráðuneytið innleiða og þróa nýtt vinnulag sem hefur að markmiði  að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi foreldra í skilnaðarferli. 

Verkefnið snýr annars vegar að aðgangi foreldra í skilnaðarferli að rafrænu námskeiði og hins vegar að viðtalsráðgjöf sérfræðings fjölskylduþjónustu. Markmið þess er að innleiða og þróa nýtt vinnulag með áherslu á félagslega ráðgjöf í skilnaðarmálum.

Verkefnið er að danskri fyrirmynd, en eftir nýlegar breytingar á dönskum skilnaðarlögum þurfa allir foreldrar, sem sækja um leyfi til skilnaðar að borði og sæng, og eiga saman börn undir 18 ára aldri, að taka námskeið um áhrif skilnaða á börn.

Fleiri sveitarfélög munu á komandi misserum hefja innleiðingu við hið nýja verklag. Nánar um málið á vef Stjórnarráðsins.