„Hagræðingin er sótt beint í vasa skattgreiðenda“

Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borginni.

Í dag fara fram oddvitaumræður í borgarstjórn um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 og fjármálastefnu Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið 2024 til 2028.

Útkomuspá fyrir rekstur samstæðu Reykjavíkurborgar árið 2023 gerir ráð fyrir halla sem nemur 4,4 milljörðum. Það er umtalsvert verra en ráð var fyrir gert, enda gerði fjárhagsáætlun ársins ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu sem myndi nema 8,1 milljarði.

„Hér er því um að ræða neikvæða sveiflu í rekstri samstæðunnar sem nemur 12,5 milljörðum“, segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Hún bendir á að hingað til hafi borgarstjóri geta stært sig af jákvæðum samstæðureikningi, að mestu vegna þess hvernig hækkandi húsnæðisverð og hækkandi álverð á heimsmörkuðum hefur haft jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu Félagsbústaða og Orkuveitunnar. „Hvoru tveggja hefur ekkert að gera með grunnrekstur samstæðunnar, hefur í báðum tilfellum verið lítið annað en loft í uppgjörum félaganna. En nú þegar gefur á bátinn, kemur í ljós að keisarinn er nakinn og rekstur samstæðunnar stendur höllum fæti“, segir Hildur.

Sjónhverfingar fremur en hagræðingar

Hildur vakti athygli á því að rekstrarniðurstaða borgarsjóðs væri neikvæð sem nemur 4,8 milljörðum króna. „Hér stíga fulltrúar meirihlutans fram og tala um gríðarlegan viðsnúning í rekstri borgarinnar, eins og nær 5 milljarða hallarekstur sé eitthvað gamanmál. Þau segja umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir helstu ástæðu þess að rekstrarniðurstaðan hefur þó skánað frá fyrra ári. Við skulum staldra aðeins við þær fullyrðingar“, sagði Hildur í samtali. 

Hildur rifjaði upp hvernig Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, boðaði fyrir tæpu ári, „einar mestu hagræðingaraðgerðir frá hruni“. Hagræðingarkrafa var sett á öll svið, þeim gert að draga úr launakosnaði og nýjar ráðningarreglur innleiddar svo stemma mætti stigu við starfsmannafjölgun.

„Þessu var ekki fylgt eftir. Þegar tölurnar eru rýndar kemur í ljós að launakostnaður jókst um 7,3 milljarða milli ára og rekstrarkostnaður sömuleiðis um 3,9 milljarða. Starfsfólki fækkaði ekki á einu einasta sviði borgarinnar, heldur fjölgaði heilt yfir“, sagði Hildur.

Hildur benti á að tekjur borgarinnar hefðu aukist umtalsvert milli ára. Skatttekjur, framlög Jöfnunarsjóðs og arðgreiðslur hefðu hækkað um nærri 21 milljarð milli ára. „Það er því ljóst að viðsnúningurinn er ekki fenginn með hagræðingu í rekstri. Nei, hann er fenginn beint úr vösum skattgreiðenda. Hann er fenginn úr auknu útsvari og úr nýjum framlögum ríkisins vegna málaflokks fatlaðs fólk. En hann er líka fenginn með auknum arðgreiðslum úr Orkuveitu og Faxaflóahöfnum – arðgreiðslum sem aukast um tæpan einn og hálfan milljarð frá áætlun! Borgarstjóri gerði auknar arðgreiðslukröfur á þessi mikilvægu innviðafyrirtæki til að plástra eigin hallarekstur. Hann virðist kæra sig kollóttan um þær mikilvægu innviðafjárfestingar sem framundan eru hjá fyrirtækjunum – og hirðir enn síður um þá mótsögn að fara fram á arðgeriðslur umfram áætlanir, hjá Orkuveitu með versnandi afkomu. Ef það er eitt sem einkennir Samfylkingu þá er það þetta: Ef þau finna tekjutusku þá vinda þau hana!“, sagði Hildur.

Hildur sagði vanda borgarinnar ekki tekjuvanda enda hafi tekjur borgarinnar aukist stöðugt undanliðinn áratug. Vandinn væri mun fremur útgjaldavandi, enda hafi starfsmannafjöldi og rekstrarkostnaður aukist langt umfram lýðfræðilega þróun síðasta áratug. „Að halda því fram að hér hafi átt sér stað einhver viðsnúningur, hvað þá hagræðingar, er í besta falli heimskulegt, í versta falli óheiðarlegt. Hér er mun fremur um að ræða sjónhverfingar, en hagræðingar“, sagði Hildur.

Ný lántaka nemi 219 milljörðum frá 2024 til 2028 

Skuldir samstæðu jukust um tæpa 44 milljarða árið 2023, en þar af jukust skuldir A-hluta um tæpa 25 milljarða. „Þetta samsvarar skuldaaukningu sem nemur 846 milljónum á viku eða 121 milljón á sólarhring“, segir Hildur.

Hún bendir á að fjárhagsáætlun geri ráð fyrir að yfir tímabilið 2024 til 2028 muni ný lántaka borgarsjóðs nema 72 milljörðum, en ef samstæðan er skoðuð í heild muni ný lántaka nema 219 milljörðum.

„Það virðist sem meirihlutinn telji sig hafa aðgang að peningatré. Eins og þau skilji ekki að hvers kyns lántaka kostar heilmikið fé“, sagði Hildur. Vísaði hún til þess að árlegar afborganir langtímalána og leiguskulda borgarsjóðs muni nema 13 milljörðum árið 2024 og munu nema 14,6 milljörðum í lok áætlunartímabils, árið 2028. „Vegna aukinnar skuldsetningar borgarsjóðs munu árlegar afborganir hafa rúmlega fimmfaldast milli áranna 2018 og 2028, og við lok áætlunartímabils munu árlegar afborganir nema um tvöföldum árlegum kostnaði við málaflokk fatlaðs fólks eins og hann var reiknaður 2021. Það er ekki tilviljun að við sjálfstæðismenn teljum mikilvægt að greiða niður skuldir, í því felst heilmikið rekstrarhagræði“, segir Hildur í samtali.

„Það er löngu tímabært að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar. Við þurfum að ráðast í hagræðingar, minnka yfirbyggingu og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Samhliða þarf að útvista fleiri verkefnum og láta af samkeppnisrekstri. Einungis þannig náum við böndum á stjórnlausum rekstri“, segir hún að lokum.