Hagur okkar allra að þetta mál sé hafið yfir allan vafa

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.

Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um að vísa skýrslu Innri endurskoðunar til þar til bærra yfirvalda var felld á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í kvöld.

Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúar flokkanna, lögðu af því tilefni fram bókun, þar sem þeir harma þessa niðurstöðu.

„Tillögu um að vísa skýrslu Innri endurskoðunar um braggann til þar til bærra yfirvalda hefur verið felld af meirihlutanum.

Það er illskiljanlegt því það er hagur okkar allra að þetta mál verði hafið yfir allan vafa þegar kemur að meintu misferli.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi.

Borgarbúar eiga rétt á að þetta mál verði rannsakað til hlítar og að engir lausir endar verði skildir eftir. Við berum ábyrgð sem kjörnir fulltrúar og eftirlitshlutverk okkar með fjárreiðum borgarinnar er ríkt. Þessu eftirlitshlutverki erum við að sinna með tillögu þessari.

Þetta mál hefur misboðið fjölmörgum Reykvíkingum og landsmönnum einnig. Meirihlutinn hefði átt að taka þessari tillögu fagnandi og sterkast hefði verið ef hann sjálfur hefði átt frumkvæðið af tillögu sem þessari. Þess í stað er brugðist illa við eins og birst hefur á fundi borgarstjórnar og í fjölmiðlum. Viðbrögðin lýsa ótta og vanmætti.

Það er mat okkar að eina leiðin til að ljúka þessu máli fyrir alvöru er að fá úrskurð þar til bærra yfirvalda á hvort misferli kunni að hafa átt sér stað. Hvað sem öllu þessu líður stendur eftir að svara því hver ætlar að taka hina pólitísku ábyrgð í þessu máli.“