Hann er talinn stjórna heiminum: George Soros maður ársins hjá FT

Breska stórblaðið Financial Times hefur útnefnt fjárfestinn George Soros sem mann ársins árið 2018. Soros er einn þekktasti viðskiptamaður heims, vantar tvö ár í nírætt og virðist verða umdeildari á alþjóðavísu með hverju árinu.

Soros, sem er gyðingur og hefur búið um áratugaskeið í Bandaríkjunum, en fæddist í Ungverjalandi, hefur alltaf verið umtalaður en svo virðist sem nafn hans verði sífellt stærra á alþjóðavísu og honum er kennt um alla mögulega hluti.

Sem faðir vogunarsjóðanna hefur hann haft gríðarleg áhrif í heimsviðskiptum og ekki alltaf til góðs. Fræg er atlaga hans að breska pundinu sem færði honum gífurlegan ávinning, en olli efnahagslægð í Bretlandi.

FT segist venjulega útnefna mann ársins á grundvelli afreka sem viðkomandi hefur unnið, en að þessu sinni eigi nafnbótin einnig við um það sem Soros standi fyrir í heimi alþjóðaviðskipta og alþjóðlegum stjórnmálum.

Þannig hafi hann varið milljörðum bandaríkjadala í margvísleg lýðræðisverkefni og komið sér í þá stöðu að vera jafn illa þokkaður af Trump Bandaríkjaforseta og Pútín Rússlandsforseta. Hann verji fjármunum sínum í baráttu gegn kynþáttamisrétti, alræðisstjórnum og frelsi fjölmiðla. Þess vegna sé hann vinsæll skotspónn öfgahreyfinga og sé talinn bera ábyrgð á mörgu því sem aflaga hefur farið, til að mynda gríðarlegum flutningum flóttafólks til Evrópu.

„Mér er kennt um hvað sem er, ætli ég eigi ekki líka að vera Anti-Kristur,“ segir Soros sjálfur. Hann kveðst gjarnan vilja að hann ætti færri óvini, en hann líti þó á þetta sem vísbendingu um að hann sé að gera eitthvað rétt.

Daglegur skotspónn

Varla líður sá dagur að Soros sé ekki skotspónn í pólitískri baráttu einhvers staðar á jarðarkringlunni. Hann hefur verið bendlaður við að fjármagna fjöldaför flóttafólks frá Suður-Ameríku gegnum Mexíkó til Bandaríkjanna, hann hefur verið sagður stærsti styrktaraðili bandaríska demókrataflokksins og á dögunum náðist að uppgötva sprengju sem barst í póstkassa fyrir utan heimili hans í New York áður en hún sprakk.

Í Ungverjalandi, hans gamla heimalandi, er hann ekki vinsæll. Þar er hann sakaður um að standa á bak við samsæri innan ESB um að fylla ríki bandalagsins af flóttafólki og innflytjendum og í kosningabaráttu nýverið gekk kosningabaráttan út á af birta plaköt af Soros og afneita honum.

Andstaða hans við Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, varð vatn á myllu þeirra sem vildu yfirgefa sambandið. Nú er hann helsti bakhjarl hreyfingarinnar sem vill nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild.

Og þegar hann sté á stokk í Davos og gagnrýndi áhrif Facebook á samfélagsumræðuna víða um heim, vöknuðu strax samsæriskenningar um að hann væri búinn að taka skortstöðu gegn fyrirtækinu og væri að reyna að knýja hlutabréf þess niður í verði.