Hér eru nokkur dæmi um ummæli óánægðra sjálfstæðismanna

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.

Óánægjan í grasrót Sjálfstæðisflokksins með ríkisstjórnarsamstarfið hefur ekki farið framhjá neinum, en gagnrýni almennra flokksmanna beinist einnig að flokknum sjálfum og því hvernig hann hafi fjarlægst eigin stefnu og áherslur í mörgum málum.

Viljinn hefur tekið saman nokkur dæmi um ummæli óánægðra sjálfstæðismanna á samskiptamiðlum undanfarna daga:

Ólafur Adolfsson, lyfsali og bæjarfulltrúi flokksins á Akranesi, var undrandi á viðtali við Bryndísi Haraldsdóttur þingkonu flokksins á Stöð 2 í gærkvöldi og segir: „Var að hlusta á fréttir á Stöð 2 og hlýt að spyrja hvort Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hafi verið utan þjónustusvæðis síðustu vikurnar? Bryndís! Grasrótin er ekki að kalla eftir endurskoðun á stjórnarsáttmálanum, við erum löngu búin að sætta okkur við að niðurstöður kosninga gáfu okkur ekki innistæðu fyrir meiru. Við erum að tala um að við ætlum ekki standa hnípin hjá þegar ráðherrar og þingmenn samstarfsflokksins fótum troða sjálfstæðistefnuna endurtekið í málum þar sem ekki hefur verið samið um niðurstöðu eða var ákveðið að láta kyrrt liggja. Það er sorglegt að þingmaðurinn skuli ekki skynja þungann í þessum málum eða það sem verra er – telja að allt sé bara í himnalagi á stjórnarheimilinu.“

Þessu svarar m.a. Jón Magnússon, fyrrverandi þingmaður flokksins: „Ekki gleyma því kæri Ólafur að við ætlum heldur ekki að standa hnípin hjá þegar ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins fótum troða Sjálfstæðisstefnuna. Er það ekki mesta vandamálið?“

Kristinn Karl Brynjarsson, formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, blandar sér í umræðuna: „Ég fór hringinn ásamt því sem ég skrapp á Ísafjörð í síðustu viku og talaði við flokksfólk víða um land. Hefði viljað hitta fleiri, en júlí ekki beint rétti tíminn til að hitta fólk á heimavelli. En ég hitti þó þó nokkra og hef heyrt í fleirum í síma. Alla síðustu viku þyngdist aldan sem kallar á breytingar og hún mun þyngjast enn frekar.“

Þórður Magnússon, atvinnurekandi á Grundarfirði, hendir boltann á lofti:

„Ég hef sagt þetta áður og neyðist til að segja þetta aftur. Ég er mjög dæmigerður atvinnurekandi, með nokkra í vinnu, velti engum milljörðum svo sem. Sjálfstæðisflokkur er hættur að tala við mig. Hann er hættur að tala um mig. Ríkisbáknið þennst út með áður óþekktum hraða. Bryndís þessi segist hlusta á fólkið… Einmitt.“

Annar sjálfstæður atvinnurekandi, Víðir Benediktsson framkvæmdastjóri, tekur undir þetta: „Sama hjá mér, hef rekið fyrirtæki í 47 ár. Þeir hafa engan áhuga á þeim sem sjá þeim fyrir skattfé þjóðfélagsins.“

Og Kristinn Karl svarar þeim báðum: „Það sem þið Þórður Magg segið hér er nákvæmlega það sama og ég hef heyrt um allt land. Að flokkurinn sé að renna inn í báknið og þekki illa grasrótina og alla þá einstaklinga sem um allt land halda samfélögum sínum gangandi með því að starfrækja lítil og meðalstór fyrirtæki.“