Hið íslenska djúpríki titrar eftir að máli Lindarhvols hefur verið vísað til ríkissaksóknara

Eitt furðulegasta mál seinni tíma á Íslandi, þar sem höndlað hefur verið með eigur almennings undir þykkum leyndarhjúp, gæti nú loks verið að koma fyrir almenningssjónir með því að Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, hefur vísað því til embættis ríkissaksóknara.

Það er vefur Viðskiptablaðsins sem greinir frá þessu, en Sigurður sendi bréf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær þessa efnis. Málið er risavaxið og líklegt til að valda mikilli hneykslan í samfélaginu, þegar efnisatriði þess munu loksins koma fram, en háttsettir aðilar í íslenska stjórnkerfinu og tilteknir kjörnir fulltrúar hafa árum saman barist með kjafti og klóm gegn því að skýrsla Sigurður líti dagsins ljós.

Sigurður, sem var áður ríkisendurskoðandi um margra ára skeið, var settur í þetta verkefni um tveggja ára skeið og skilaði, að sögn heimildarmanna Viljans, svartri skýrslu fyrir um fimm árum síðan. Hún hefur aldrei fengist birt. Þess í stað tók nýr ríkisendurskoðandi, Skúli Eggert Þórðarson, málið yfir og felldi það inn í sína skýrslu um málið sem litlum tíðindum sætti og þótti að margra mati hvítþvottur.

Viljinn er einn margra fjölmiðla sem árum saman hafa ítrekað sent fyrirspurnir innan stjórnkerfisins um upplýsingar um málefni Lindarhvols. Alls staðar hafa fjölmiðlar komið að lokuðum dyrum, en ekki aðeins fjölmiðlar heldur líka kjörnir fulltrúar. Þó er ljóst að þarna er á ferðinni sem varðar beina hagsmuni almennings. Fyrir skemmstu kom Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, í veg fyrir að skýrsla Sigurðar Þórðarson yrði birt, enda þótt skýr meirihluti væri fyrir því innan forsætisnefndar þingsins.

„Þetta mál allt er fullkomið dæmi um það sem kalla mætti íslenska djúpríkið,“ segir heimildarmaður Viljans sem vel þekkir til í pólitíkinni og stjórnkerfinu. „Það er allt gert til að þæfa málið, enda mökuðu margir krókinn á þessu félagi og vilja ekki að upp komist. Í ljósi Íslandsbankaskýrslunnar, er ljóst að djúpríkið titrar nú af áhyggjum,“ bætir hann við.

Sigurður Þórðarson hefur margoft í fjölmiðlum og fyrir þingnefndum furðað sig á því að skýrsla hans komi ekki fyrir almenningssjónir. Útspil hans nú, að vísa málinu til ríkissaksóknara, sýnir hverjum augum hann lítur það og líklegt er að öll spilin verði lögð á borðið áður en langt um líður. Heimildir Viljans segja að Sigurður hafi óvænt verið tekinn úr verkefninu á sínum tíma, því hann spurði „óþægilegra spurninga“ og var með „almenn leiðindi“ við áhrifamenn sem ekki voru vanir slíkir trakteringum.

Í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir ári, sagði Sigurður: „Mér leikur forvitni á að vita hvað það er í greinargerðinni sem menn vilja ekki að birtist.“