Hluti miðbæjarins verður að varanlegum göngugötum

Hluti Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs fá andlitslyftingu og verða varanlegar göngugötur. Skjáskot/Reykjavíkurborg

Skipulags- og samgönguráð samþykkti í dag nýtt deiliskipulag fyrir Laugaveg sem göngugötu en hluti Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs verður gerður að varanlegum göngugötum. Frá þessu segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, gróður, götugögn og lýsingu.

Framkvæmdir verða unnar í níu áföngum. Takmarkið er að rask við framkvæmdir verði sem minnst og einblínt verður á eitt svæði í einu. Áherslan verður ekki á allsherjar endurbætur með stórum vinnuvélum, heldur verður unnið með smærri skala. Jafnframt segir að framkvæmdir verði í samvinnu við rekstrar- og fasteignaeigendur.

Afmörkun svæðis er Laugavegur og Bankastræti frá Klapparstíg að Þingholtsstræti. Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar. Vegamótastígur frá Laugavegi að Grettisgötu.

Nánari útfærslu má skoða hér:

Deiliskipulag Laugavegur

Kynning á nýrri nálgun á Laugavegi