Horft verði til landsins alls í uppbyggingu húsnæðis

Raunverð íbúða hefur hækkað í níu ár samfellt.

Stéttarfélagið Framsýn hefur lengi haft áhyggjur af stöðu fólks, ekki síst á landsbyggðinni, sem hefur ekki aðgengi að viðráðanlegum úrræðum í húsnæðismálum. Það á bæði við um leiguhúsnæði og eins íbúðakaup. Í yfirstandandi kjaraviðræðum aðila vinnumarkaðarins og á fundum með stjórnvöldum hafa forystumenn verkalýðshreyfingarinnar komið þeim skilaboðum skýrt á framfæri að ein af mikilvægustu kröfum hreyfingarinnar sé að skapa aðstæður fyrir tekjulítið fólk til að verða sér úti um húsnæði á viðráðanlegum lána- eða leigukjörum.

Með bréfi til Alþýðusambands Íslands, sem fer fyrir viðræðunum við ríkið, taldi Framsýn stéttarfélag rétt að árétta kröfu félagsins um að horft verði til landsins alls þegar kemur að þessum mikilvæga þætti. Að mati félagsins hefur ekki verið horft nægjanlega vel á stöðu fólks á landsbyggðinni sem býr á svokölluðum „köldum svæðum“ þegar kemur að uppbyggingu íbúðahúsnæðis á Íslandi. Framsýn kallar eftir samstarfi ríkis, sveitarfélaga, stéttarfélaga og húsnæðissamvinnufélaga.

Í bréfi Framsýnar stéttarfélags til ASÍ kemur m.a. fram:

„Verkalýðshreyfingin hefur lengi talað fyrir því að allir eigi að búa við þau sjálfsögðu mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið burtséð frá efnahag eða búsetu. Í því sambandi nægir að nefna samtöl sem talsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa átt við stjórnvöld á hverjum tíma og yfirlýsingar frá þingum Alþýðusambands Íslands og aðildarfélögum þess.

Þrátt fyrir stefnu og göfug markmið Alþýðusambands Íslands í húsnæðismálum er vandinn allt of stór víða um land, ekki síst á svokölluðum „köldum svæðum.“ Staðreyndin er að skortur á íbúðarhúsnæði skerðir verulega lífsgæði fjölda fólks á vinnumarkaði og hamlar viðgangi samfélaga á viðkomandi stöðum.   

Aðalsteinn Baldursson er formaður Framsýnar á Húsavík.

Húsnæðisvandinn endurspeglast ekki síst í kröfugerðum verkalýðshreyfingarinnar um þessar mundir þar sem bent hefur verið á að tillögur stjórnvalda í húsnæðismálum geti liðkað fyrir samningaviðræðum á vinnumarkaði.

Inn í þá umræðu vill Framsýn stéttarfélag koma þeim skilaboðum til Alþýðusambands Íslands að horft verði til þess í viðræðum við stjórnvöld að hugað verði að landinu öllu þegar kemur að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Að mati Framsýnar hefur ekki verið horft til landsins alls þegar kemur að úrræðum fyrir fólk sem vill skapa sér aðstæður til að eignast eða leigja íbúðarhúsnæði. Úrræðin hafi um of einskorðast við höfuðborgarsvæðið og stærstu þéttbýlisstaðina. 

Því miður hafa tillögur stjórnvalda gengið of skammt hvað landsbyggðina varðar og þá hefur Bjarg íbúðafélag, sem stofnað var til af verkalýðshreyfingunni, ekki mætt þessum þörfum þrátt fyrir að veruleg atvinnuuppbygging hafi átt sér stað á landsbyggðinni s.s. á félagssvæði Framsýnar í Þingeyjarsýslum.“

Sem innlegg inn í umræðuna við stjórnvöld beinir Framsýn þeim tilmælum til Alþýðusambands Íslands að þörfum landsbyggðarinnar á lausn mála hvað varðar íbúðabyggingar og fjármögnunarleiðir verði komið vel á framfæri, ekki síður en fyrirliggjandi þörf á höfuðborgarsvæðinu.

Lykillinn af raunverulegum breytingum á núverandi ófremdarástandi er að stjórnvöld leggi fram ábyrgar tillögur til lausnar á vandanum í samráði við hagsmunaaðila eins og sveitarfélög, stéttarfélög og húsnæðissamvinnufélög.