Hvað með öll svipugöngin sem VG hefur þurft að þola af hálfu sjálfstæðismanna?

„Það er mjög áhugavert að fylgjast með því sem er í gangi á milli ríkisstjórnarflokkanna, þetta er eins og þeim sé mikið í mun um að sannfæra þjóðina um að það sé ekki nokkur einasta leið fyrir þau að vinna samhent að nokkru máli,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar í samtali við Viljann um stöðuna í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir. Óhætt er að segja að hefðbundin sumargúrkutíð fjölmiðlanna sé víðs fjarri, fjölmörg erfið mál í gangi og vinsældir ríkisstjórnarinnar á hraðri niðurleið, miðað við kannanir. 

„Atburðarásin sem nú er í gangi, og er eiginlega búin að vera í gangi frá því að fjármálaáætlunin var á lokametrunum, er eins og ýkt útgáfa af því sem stundum gerist á síðustu mánuðum fyrir kosningar. Þá gerist það oft að stjórnarflokkar leggja meiri áherslu á sína eigin stefnu og tala grimmar inn í eigin kjósendahóp,“ segir Sigmar. 

„Við sáum í þinglokum að þau náðu ekki saman um nokkurt mál. Jón Gunnarsson hefur rakið það ágætlega í viðtölum. Núna eru lætin mest í kringum hvalveiðarnar og ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og líka Íslandsbankasalan. Greinin sem Óli Björn skrifaði í gær er auðvitað ekkert annað en risastór hótun um stjórnarslit ef Svandís bakkar ekki með sína ákvörðun. Óli Björn er þingflokksformaður og orð hans hafa því meira vægi en margra annara. Svo er það spurning hvort Sjálfstæðiflokkurinn muni fylgja eftir þessari hótun sinni. Mér finnst athyglisvert í þessu samhengi að það er eins og flokkurinn átti sig ekki á þeim svipugöngum sem VG hefur þurft að fara í gegnum í þessu stjórnarsamstarfi, vegna Sjálfstæðiflokksins. Nægir þar að nefna útlendingamálin og þegar Jón Gunnarsson keyrði rafbyssur í gegn, þrátt fyrir mótmæli ráðherra VG inn í ríkisstjórninni. Allt segir þetta okkur mjög skýrt að öll þolinmæði er horfin í stjórnarsamstarfinu og flokkarnir eru farnir að tala grimmt út frá eigin hagsmunum, en ekki hagsmunum stjórnarsamstarfsins. Þetta bitnar auðvitað á fólkinu í landinu, því það vantar ekki mikið upp á að landið sé nánast stjórnlaust í fangi ríkisstjórnar sem getur ekki tekið neinar ákvarðanir sem skipta máli út af innbyrðis átökum.“

Sigmar bendir á að ríkisendurskoðandi hafi verið harðorður þegar hann boðaði framhaldsúttekt út af íslandsbankasölunni fyrr í vikunni. „Ekki bara vegna Bankasýslunnar heldur líka í garð ríkisstjórnarinnar. Ríkisendurskoðandi sagði skýrt í fréttum RÚV fyrr í vikunni að ráðuneytið hefði ekki brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar úr skýrslunni sem kom út síðasta haust. Bankasýslan, sem er algerlega umboðslaus eftir að boðað var að hún yrði lögð niður, kemur enn fram fyrir hönd ríkisins þegar rætt er um Íslandsbanka, með tilheyrandi hagsmunaárekstrum og orðsporsáhættu  fyrir ríkið sem enn á stóran hlut í Íslandsbanka. Þetta er Ríkisendurskoðun að gagnrýna í dag, en það eina sem heyrist frá stjórnarþingmönnum er að þeir leggja ofuráherslu á að fá starfslokasamning Birnu Einarsdóttur fram í dagsljósið. Það út af fyrir sig er gott, en það er auðvitað ekki aðalatriðið á sama tíma og Ríkisendurskoðun er að benda á að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi ekki sinnt ábendingum sem fram koma í svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar um bankasöluna. Fréttir bera með sér að sömu menn og stjórnuðu sölunni hjá bankasýslunni, muni gæta hagsmuna ríkisins á hluthafafundi bankans síðar í mánuðinum, í boði ráðherra sem þó hafa sagt að þessir sömu menn eigi að víkja vegna þess að þeir klúðruðu sölunni. Þetta er auðvitað með talsverðum ólíkindum.

Yfir þessu hanga svo efnahagsmálin og kjarasamningar næsta vetur. Það er augljóst sé að þau verkefni séu svo stór að ríkisstjórn sem kemst ekki í gegnum umræðu um rafbyssur, hvalveiðar og sölu á hlut í banka, án þess að upp úr sjóði sé ekki í nokkurri stöðu til að leysa þau flóknu mál svo vel sé. Jarðskjálftar og eldgos geta mögulega fært athyglina annað um skamma hríð, en þessar harðvítugu deildur innan ríkisstjórnarflokkanna hverfa ekki þótt það gjósi,“ segir Sigmar Guðmundsson ennfremur.