Hvers vegna hefur íslenskt samfélag aðallega þörf fyrir ófaglært starfsfólk?

„Ég hlýddi nýverið á fyrirlestur Sigurðar Jóhannessonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um launaþróun á Íslandi frá aldamótum. Það sem einkennir þá þróun er nokkuð sérstakt og ég vil vekja athygli þingheims á þeirri þróun og hvað hún segir um íslenskt samfélag,“ sagði Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar á Alþingi í gær, en hann situr þar þessa dagana sem varaþingmaður flokksins.

„Frá því árið 2000 hafa laun háskólamenntaðra að raunvirði staðið í stað. Laun ófaglærðra hafa hækkað nokkurn veginn jafnt og þétt um 3% á ári. Þetta er í sjálfu sér ekki áhyggjuefni, þ.e. að laun ófaglærðra hafi hækkað. Það sem er áhyggjuefni er að íslenskt samfélag hefur á þessu tímabili fyrst og fremst haft þörf fyrir ófaglært starfsfólk.

Þróað samfélag krefst þess að skapa tækifæri sem ýta undir framleiðni til lengri tíma og íslenskt samfélag hefur ekki verið í stakk búið til að skapa þessi tækifæri á undanförnum árum. Þetta er áhyggjuefni.

Hvernig ætlum við í framtíðinni að bjóða þegnum Íslands upp á mannsæmandi þjónustu ef enginn er til að fjármagna hana? Við þurfum að huga að því þegar við ýtum undir þróun ákveðinna atvinnugreina frekar en annarra að þær atvinnugreinar skapi tækifæri sem skapa samfélag sem við viljum bjóða börnunum okkar,“ bætti Daði Már við.