Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sagði stefnt að framlagningu mála er varða innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins í íslenska löggjöf í febrúar.
Þetta kom fram í máli ráðherra við almennar stjórnmálaumræður á Alþingi í dag í upphafi vorþings.
Þórdís Kolbrún, sem er jafnframt varaformaður Sjálfstæðisflokksins, staðfesti að skiptar skoðanir væru um málið innan flokks og í samfélaginu og þar sem það væri ekki enn komið til kasta þingsins, gæti hún ekki sagt til um stuðning við það.
„Málið er til skoðunar í heild sinni og líka einstakir þættir þess,“ sagði ráðherrann og kvaðst vilja þétta enn frekar rökstuðning fyrir innleiðingunni og svör við þeirri gagnrýni sem komið hefði fram.
„Hvort ég geti heitið því að málið fari hér í gegn, að þá get ég engu heitið í pólitík þar sem hver og einn fylgir sinni sannfæringu en mín sannfæring er sú, að þar sem málið er skaðlaust og eðlileg og rökrétt þróun á fyrsta og öðrum orkupakkanum að það ætti ekki að gefa tilefni til þess að fara í einhvern leiðangur sem við höfum aldrei áður farið í,“ sagði hún ennfremur og átti þar við mögulegar afleiðingar þess að Ísland hafni því að innleiða tilskipun EES, en slíkt hefur ekki gerst áður og hafa sumir gert því skóna að slíkt gæti jafngilt uppsögn okkar eða að minnsta kosti endurskoðun á EES-samningnum.