Innflytjendavandinn stærsta ógnin sem steðjar að Evrópusambandinu

Sýrlenskir flóttamenn koma til Svíþjóðar, en þeir voru að flýja átök. Mynd/Wikimedia Commons

Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins varar við því að stöðugur straumur innflytjenda til aðildarlanda sé stærsta ógnin sem steðji að sambandinu og verði ekkert að gert, geti það brotnað upp innanfrá, þar sem einstök aðildarríki hafi miklu meiri fyrirvara á innflytjendum en önnur.

Spánverjinn Josep Borrell hefur með öryggis- og varnarmál að gera innan framkvæmdastjórnar ESB. Hann segist hafa áhyggjur af vaxandi þjóðerniskennd um alla Evrópu, sem hafi stigmagnast þar sem ekki hafi náðst eining um sameiginlega stefnu í innflytjendamálum.

„Það eru sum ríki Evrópusambandsins tregari að taka við innflytjendum en önnur, þau eru lík Japan að því leyti, hafa áhyggjur af blöndun (e. mix),“ segir Borrell í samtali við Guardian.

Hann bendir hins vegar á að lág og lækkandi fæðingartíðini í mörgum ríkjum ESB kalli á stöðugan innflutning vinnuafls og þess vegna sé fólgin í þessu ákveðin þversögn.

Ummæli utanríkismálastjórans eru ekki sett fram í tómarúmi. Stenmeier þýskalandsforseti lýsti því yfir fyrr í vikunni að Þýskaland geti ekki tekið við fleiri innflytjendum, hvorki farandverkafólki né hælisleitendum. Sagði hann Þýskaland komið að þolmörkum líkt og Ítalía.

Þjóðverjar eru í efnahagskreppu, aldrei þessu vant. Orkuverk hefur rokið upp vegna Úkraínustríðsins og viðskiptabanns á rússneskt gas og þýskur almenningur er farinn að býsnast yfir kostnaðinum við flóttamenn. Forsetinn bendir á að yfir milljón Úkraínumanna hafi komið til landsins frá því innrás Rússa hófst, en stöðugur straumur að landamærum Þýskalands austanverðum sé líka mikið áhyggjuefni, þar sem hælisleitendur frá löndum á borð við Afganistan og Sýrlandi freista þess að eignast betra líf.