Ísland þarf að treysta á aðflutta til að standa undir hagvexti framtíðarinnar

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA. / SA.

„Við vöxum ekki án innviða, mannauðs og nýsköpunar. Íbúasamsetningin hefur mikil áhrif á framtíðarhagvaxtagetu landsins, menntun, þekkingarstig og atvinnuþátttaka spila einnig stórt hlutverk,“ sagði Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í ræðu sinni á ársfundi atvinnulífsins í Borgarleikhúsinu í dag.

Sérstaka athygli vöktu orð hennar um mikilvægi aðflutts vinnuafls hér á landi til framtíðar.

„Ísland mun koma til með að treysta á aðflutta til þess að standa undir hagvexti framtíðarinnar, aðfluttir hægja jafnframt á öldrun þjóðar, auka fjölbreytileika í menningu og þekkingu. Fyrirtæki eru ekkert án fólks og því er mannauður Íslands okkur hjartans mál.

Náttúruleg fjölgun íbúa á vinnualdri á Íslandi getur einungis staðið undir 0,5% hagvexti og því þarfnast hagvöxtur umfram 0,5% aðfluttra einstaklinga til þess að sinna þeim störfum sem verða til.

Ef landsframleiðsla vex um 13% fram til 2026, líkt og hagvaxtarspár gera ráð fyrir, þá fjölgar störfum um 15.000 á meðan íbúum Íslands á vinnualdri mun fjölga um 2.500,“ sagði Sigríður Margrét ennfremur.