Frá árinu 2020 og inn á mitt ár 2021, þegar vextir voru hvað lægstir, voru ný íbúðalán bankanna að mestu leyti óverðtryggð á breytilegum vöxtum. Eftir mitt ár 2021, þegar vextir tóku að hækka, fór fólk að festa óverðtryggðu vextina. Nú, þegar vextir eru orðnir töluvert hærri, liggur straumurinn aftur í verðtryggð íbúðalán, segir í Hagsjá Landsbankans sem birtist í morgun.
Þar er bent á að frá lokamánuðum síðasta árs hafi straumurinn legið yfir í verðtryggð lán, þar sem greiðslubyrði slíkra lána er töluvert lægri en af óverðtryggðum lánum þegar vextir eru háir eins og nú. Í maí voru hrein ný íbúðalán banka til heimila 4,4 ma.kr., þar sem ný verðtryggð lán voru 8,7 ma.kr. en ný óverðtryggð lán neikvæð um 4,3 ma.kr. Það þýðir með öðrum orðum að þau hafa verið greidd upp í endurfjármögnun, þar sem fólk tekur verðtryggð lán með lægri greiðslubyrði en miklu meiri heildarkostnaði í staðinn.
„Þegar Seðlabankinn lækkaði vexti sem viðbrögð við heimsfaraldrinum, jókst áhugi fólks á óverðtryggðum lánum. Frá árinu 2020 jukust óverðtryggð íbúðalán banka töluvert. Fyrst með breytilegum vöxtum en þegar vextir tóku aftur að hækka um mitt ár 2021 fór fólk að festa óverðtryggðu vextina. Þar hafa væntingar um frekari vaxtahækkanir líklega haft mest áhrif. Síðustu mánuði, þegar stýrivextir hafa hækkað enn frekar og eru nú komnir upp í 8,75%, og vextir á óverðtryggðum íbúðalánum eru um eða yfir 10%, eru hrein ný íbúðalán bankanna að mestu verðtryggð. Þar spila þrengri lánaskilyrði og hækkandi vextir stórt hlutverk, þar sem fólk uppfyllir frekar lánaskilyrði verðtryggðra lána, vegna lægri mánaðarlegra afborgana,“ segir ennfremur í Hagsjánni.