Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að viðurkenna Juan Gauidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem réttmætan forseta landsins en Nicolas Maduro, forseti landsins, neitar að gefa eftir völd sín.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tilkynnti þetta á Twitter í kvöld og segist hafa rætt málið í ríkisstjórn og utanríkismálanefnd Alþingis og þar sé eining um málið.
Iceland supports @jguaido as the Interim President of Venezuela. Free and fair elections should now be called and the will of the people respected.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) February 4, 2019
Svívirðilegur vesaldómur
Á samskiptamiðlum í kvöld sést að innan raða Vinstri grænna er óánægja með þessa ákvörðun og sparar Ögmundur Jónasson fv. ráðherra flokksins ekki stóru orðin í pistli á vefsíðu sinni.
„Tilkynnt hefur verið að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að hlýða kalli um að fylkja sér á bak við ákvörðun Bandaríkjastjórnar að hrekja núverandi forseta Venesúela frá völdum og setja mann sér þóknanlegan í hans stað.
Sannast sagna hélt ég að afhjúpun ósanninda um valdaskipti og tilraunir til valdaskipta í Írak, Líbíu, Sýrlandi og nú Venesúela, svo nýjustu dæmin séu nefnd, væri nóg til að íslensk stjórnvöld sæju sóma sinn í því að halda sér alla vega til hlés.
Í öllum þessum dæmum var gerandinn hinn sami, bandalagsríki Íslands í NATÓ með Bandaríkin í broddi fylkingar.
Réttast væri að mótmæla ofbeldinu og ósannindunum en lágmarkskrafa er að gerast ekki svo svívirðilega undirgefinn heimsauðvaldinu sem þess afstaða ríkisstjórnar og Alþingis ber vott um,“ segir Ögmundur.