Íslenskt samfélag hefur gjörbreyst síðustu áratugi

„Árið 2023, þriðjudaginn 12. september, var hundrað fimmtugasta og fjórða löggefandi Alþingi sett í Reykjavík. Er það hundrað tuttugasta og sjöunda aðalþing í röðinni en hundrað sjötugasta samkoma frá því er Alþingi var endurreist,“ segir í fundargerð þingsetningar Alþingis frá í dag. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn gengu til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, predikaði og þjónaði fyrir altari ásamt sr. Sveini Valgeirssyni, sóknarpresti Dómkirkjunnar. Að lokinni guðsþjónustu gengu þingmenn aftur til Alþingishússins, fundarsalar Alþingis.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sagði í ávarpi sínu að íslenskt samfélag hafi gerbreyst að mörgu leyti síðustu áratugi. Stór hluti íbúa landsins sé nú af erlendu bergi brotinn og sé vel að verki staðið verði samfélagið fjölbreyttara og fallegra, öflugra og framsæknara.

„Um leið þurfum við að tryggja að eining ríki um grunnstoðir okkar, málfrelsi og athafnafrelsi hvers og eins, réttarríki og samhjálp – samfélag þar sem fólk getur sýnt hvað í því býr, sjálfu sér og öðrum til heilla, en fær líka þá aðstoð sem þörf krefur hverju sinni. Samtímis má efla þá þætti í menningu okkar og mannlífi sem geta sameinað flesta íbúa landsins. Við eigum tungumál sem gerir okkur kleift að
skilja það sem var skráð á bókfell fyrir nær þúsund árum, Heimskringlu og Fóstbræðra sögu, Járnsíðu og Jónsbók og allan okkar menningararf í aldanna rás.“

Einnig nefndi forseti að í stjórnarskrá mætti vera kveðið á um það sem nú þegar má finna í lögum, að íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.

Birgir Ármannsson forseti Alþingis tók á móti forseta Íslands fyrir þingsetningu í dag ásamt Rögnu Árnadóttur skrifstjóra Alþingis og fv. ráðherra.