Ísrael lýsir yfir stríði eftir árásir Hamas: Flugvél send eftir 120 Íslendingum í Tel Aviv

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að senda farþegaflugvél á vegum íslenska ríkisins til Ísraels. Henni er ætlað að ferja heim um 120 Íslendinga sem þar eru strandaglópar vegna ófriðarástandsins í landinu en það hefur sett allar samgöngur úr skorðum.

Það er ófriðlegra í heiminum eftir atburði helgarinnar. Svo virðist sem óvænt leiftursókn Hamas með gríðarlegu eldflaugaregni og árásum á Ísrael aðfaranótt laugardags, hafi komið heimamönnum algjörlega að óvörum, þrátt fyrir að leyniþjónusta Ísraels sé ein sú öflugasta í heimi. Talið er að 250 Ísrealar hið minnsta liggi í valnum eftir árásirnar, auk þess sem tugir eða jafnvel hundruð voru teknir höndum og fluttir nauðugir á brott sem gíslar.

Á samfélagmiðlum hafa birst myndbönd af hinum föllnu og særðu sem reitt hafa marga til reiði. Árásarmenn Hamas virðast hafa farið um með taumlausu ofbeldi og komið heimamönnum algjörlega á óvart.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í ávarpi til þjóðar sinnar að árás Hamas væri mjög alvarlegur viðburður og vafalítið upphaf að langvinnu hörðu stríði. Allt verði nú gert til að ráða niðurlögum Hamas í eitt skipti fyrir öll. Sagði hann að hinna látnu yrði hefnt með „eftirminnilegum hætti“ og Ísrael muni sigra í þessu stríði, en það verði dýrkeypt. „Það er á ábyrgð Hamas að hafa sett af stað ófyrirleitið stríð,“ sagði hann.

Gert er ráð fyrir að vélin á vegum utanríkisráðuneytisins fari frá Tel Aviv klukkan 09:10 að staðartíma í fyrramálið og farþegar verði komnir til Íslands um miðjan dag á morgun.

Ísland hyggst bjóða Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum laus sæti í vélinni sem ekki nýtast fyrir íslenska ríkisborgara.