Jón Gunnarsson varpar fram bombu um ríkisstjórnarsamstarfið og sakar VG um óheilindi

Jón Gunnarsson.

Jón Gunnars­son, fyrr­verandi dóms­mála­ráð­herra, varpaði fram enn einni bombunni í innbyrðis erjum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um ríkisstjórnarsamstarfið með því að upplýsa að þing­menn og ráð­herrar Vinstri grænna hafi gert kröfu um það að hann viki úr ríkis­stjórn gegn því að verja hann gegn van­trausti þegar það var lagt fram sl. vor.

Svo fór að vantrausttillagan gegn Jóni var felld, en nokkru síðar var tilkynnt að hann væri á förum úr ríkisstjórninni og við tæki Guðrún Hafsteinsdóttir sem nú er dómsmálaráðherra.

Jón setur fram afar harða gagnrýni á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og segir hana verða að víkja úr ríkisstjórn, hún hafi gerst brotleg við lög og hann geti ekki verið meðsekur henni í stjórnsýslu hvalveiðimála.

Þetta kom fram í viðtali við Jón í hlað­varps­þættinum Ein pæling. Þar segir hann beinum orðum að Vinstri græn skorti heilindi og segist hafa mislíkað mjög að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tiltæki sérstaklega á flokksráðsfundi VG um helgina, að VG standi í þessu ríkisstjórnarsamstarfi af heilindum. Það væru mikil öfugmæli.