Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, varpaði fram enn einni bombunni í innbyrðis erjum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um ríkisstjórnarsamstarfið með því að upplýsa að þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna hafi gert kröfu um það að hann viki úr ríkisstjórn gegn því að verja hann gegn vantrausti þegar það var lagt fram sl. vor.
Svo fór að vantrausttillagan gegn Jóni var felld, en nokkru síðar var tilkynnt að hann væri á förum úr ríkisstjórninni og við tæki Guðrún Hafsteinsdóttir sem nú er dómsmálaráðherra.
Jón setur fram afar harða gagnrýni á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og segir hana verða að víkja úr ríkisstjórn, hún hafi gerst brotleg við lög og hann geti ekki verið meðsekur henni í stjórnsýslu hvalveiðimála.
Þetta kom fram í viðtali við Jón í hlaðvarpsþættinum Ein pæling. Þar segir hann beinum orðum að Vinstri græn skorti heilindi og segist hafa mislíkað mjög að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tiltæki sérstaklega á flokksráðsfundi VG um helgina, að VG standi í þessu ríkisstjórnarsamstarfi af heilindum. Það væru mikil öfugmæli.