Jón Steinar gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn harkalega og vill slíta stjórnarsamstarfinu

„Ég hef stutt Sjálfstæðisflokkinn allt frá því ég komst til vits og ára. Nú hefur sá flokkur breyst í að verða stefnulítill flokkur sem tekst aðallega á við flokka lýðskrums og vinstrimennsku um fáfengileg dægurmál í því skyni að ná af þeim atkvæðum. Það mun auðvitað ekki takast.“

Þetta skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari og lögmaður, í harðorðum pistli á vefsíðu sinni, þar sem hann segir flokknum bera að fylgja gömlum stefnumálum sínum sem og öðrum nýjum sem byggja á sama hugmyndagrunni.

Þá muni hann afla sér meira fylgis en hann nú virðist hafa, auk þess sem stjórnmál eigi að snúast um að koma fram hugsjónum en ekki að víkja frá þeim í atkvæðasöfnun.

Þá telur hann upp nokkur mál sem hann telur að tilheyri hugsjónum flokksins og honum beri að setja í öndvegi. Þau ættu m.a. að valda því að hann segi sig úr lögum við samstarfsflokka sína í ríkisstjórn. Hann sé sannfærður um að þá muni hann geta aukið fylgi sitt til mikilla muna við næstu kosningar.

Áherslumál Jóns Steinars fyrir Sjálfstæðisflokkinn eru þessi:

Frelsi með ábyrgð

Meginviðhorf í stefnu flokksins verði að láta íslenska borgara njóta frelsis til orðs og æðis og gæta þess í leiðinni að hver og einn beri ábyrgð á gjörðum sínum.

Vernd mannréttinda

Lögð verði áhersla á að einstakir borgarar eigi að njóta mannréttinda með ábyrgð. Sú meginregla skal gilda að setta lagaheimild þurfi til að skerða frelsi borgaranna. Slíkar skerðingar nái ekki til þeirra réttinda sem vernduð eru í stjórnarskrá eða styðjast við skuldbindingar gagnvart öðrum þjóðum.

Nýting orkuauðlinda

Náttúrulegar auðlindir eru með verðmætustu eignum Íslendinga á sama tíma og aðrar þjóðir eiga þess ekki sama kost að framleiða umhverfisvæna orku. Við eigum að nýta þessa auðlind svo sem kostur er hér innanlands eða með því að ráðstafa afrakstri hennar til erlendra aðila, annað hvort með því að þeir nýti hana hér á landi eða með því að flytja hana til þeirra sé þess kostur.

Frjálst atvinnulíf

Það á að vera meginmarkmið að íslenskir borgarar eigi og reki starfsemi atvinnufyrirtækja í landinu en ekki ríkisvaldið, stofnanir þess og fyrirtæki. Þetta á meðal annars við um margvíslega starfsemi í heilbrigðiskerfinu. Þetta er til þess fallið að uppræta spillingu, því menn fara betur með eigið fé en annarra.

Jafnrétti

Frelsi manna til orða og athafna eiga ekki að takmarkast af öðru en réttindum annarra. Allir skulu vera jafnir fyrir lögunum. Ekkert okkar hefur heimild til að sitja yfir hlut annarra með því að bjóða og banna, eins og svo margir vilja sífellt gera. Sumir vilja flokka mannfólkið eftir þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, gáfum eða hverju því öðru sem greinir einn mann frá öðrum. Til þess hafa menn yfirleitt enga heimild.

Endurvakning á trausti til dómstóla

Dómurum við Hæstarétt verði fækkað í fimm. Fara ber yfir lagareglur um dómstóla og starfsemi þeirra. Þar er þýðingarmest að afnema með öllu aðild starfandi dómara að skipun nýrra. Þurfi að kalla inn varadómara skuli dómsmálaráðherra annast það.

Minni skattheimta

Með samdrætti á starfsemi ríkisins verður unnt að draga úr skattheimtu. Á það við hvort sem um ræðir beina skatta eða skatta sem lagðir eru á almenna neyslu manna eða afnot þeirra af eignum í eigu ríkisins eða annarra opinberra aðila.

Réttarstaða útlendinga

Flokkurinn á að fallast á að til landsins fái að flytjast erlent fólk. Þar ber aðallega að hafa tvennt í huga: Að um sé að ræða fólk sem nýtir hér starfsorku sína og athafnasemi eða þá sem hallir standa og vilja leita hingað til að forðast ofbeldi á heimaslóðum sínum.

Opinber aðstoð

Binda ber opinbera aðstoð sem mest við þá sem þurfa á henni að halda í stað þess að aðstoða alla sem notið geta opinberrar aðstoðar þó að þeir hafi sjálfir fjárhagslegt bolmagn til að njóta hennar.