Jón varpar bombu: Kosningar eða nýtt stjórnarmynstur til að fara í virkjanir

Óhætt er að segja að Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fv. ráðherra, hafi varpað enn einni bombunni inn í ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, í morgun þegar hann sagðist enga trú hafa á því að ríkisstjórnin sé fær um að leysa það neyðarástand sem komið er upp í orkumálum landsmanna. Sagði hann nauðsynlegt fyrir þingið að standa undir ábyrgð sinni og mynda þyrfti nýjan meirihluta til að koma nauðsynlegri uppbyggingu nú þegar af stað eða kosningar.

Sagði Jón í viðtali í Bítinu á Bylgjunni, útilokað að ná slíkum lausnum fram í þessu ríkisstjórnarsamstarfi sem einkenndist af mikilli óeiningu. En það væri þjóðaröryggismál að rjúfa kyrrstöðuna og setja í forgang.

Sagði hann ljósan meirihluta í þinginu til að ráðast þegar í nauðsynlega uppbyggingu á vatnsaflskostum og uppbyggingu á vindorku, en sá meirihluti væri ekki til í núverandi ríkisstjórn. Best væri því að koma sér saman um nýjan meirihluta í þinginu til að afgreiða þessi mál, eða boða til kosninga, þótt þær gætu verið óheppilegar á þessum tímapunkti.

Ítrekaði Jón að það væru mjög alvarlegir brestir í þessu stjórnarsamstarfi og engin ástæða væri fyrir sig til að fegra hlutina. Hann gæti fallist á að vera orðinn pirraður á samstarfi sem engu skilaði í stórum málum.

„Já, ég er pirraður. Ég horfi bara uppá þessi verkefni sem verður að leysa og ég treysti ekki þessari ríkisstjórn til að leysa þau. Það er bara staðan og þetta geta allir sagt sér sjálfir sem fylgjast með pólitík.“