Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að íslensk stjórnvöld fordæmi árás Hamas á Ísrael, það hafi utanríkisráðherra gert afdráttarlaust fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og hún taki algerlega undir það.
Þetta kom fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn forvera hennar í embætti, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem benti á að þjóðarleiðtogar um allan heim hefðu fordæmt grimmdarverk Hamas með skýrum og afdráttarlausum hætti.
„Um helgina varð Ísrael fyrir mestu hryðjuverkaárás í sögu landsins. Yfir 1.000 hryðjuverkamenn Hamas-samtakanna brutust yfir landamærin inn í Ísrael til að drepa þar fólk af handahófi. Um 260 ungmenni hið minnsta voru drepin á tónlistarhátíð sem helguð var friði. Svo var farið inn í íbúðahverfi, gengið hús úr húsi og fólk myrt á heimilum sínum, konum nauðgað og fólki, m.a. börnum, rænt. Á meðan var þúsundum eldflauga skotið á Ísrael. Enn er óljóst hversu margir féllu í þessari hryðjuverkaárás, alla vega yfir 800, miklu fleiri særðust og það er ekki vitað hversu margir voru teknir í gíslingu. Síðan þá og raunar strax eftir þessar hörmungar lýstu nánast allir þjóðarleiðtogar Vesturlanda, og reyndar fleiri, yfir fordæmingu á þessum hryðjuverkum og Hamas,“ sagði Sigmundur Davíð.
Katrín Jakobsdóttir sagði þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafs vera mikið áhyggjuefni og afleiðingarnar geti orðið gríðarlegar og haft áhrif langt út fyrir þetta svæði. „Við erum að sjá átökum í heiminum fjölga, víða um heim, og heimurinn er í raun og veru orðinn allur annar staður en hann var bara fyrir örfáum árum. Ég vil segja það, þó að hv. þingmaður vilji ekki að ég tali um það, að það er líka áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga að sjá þessa uggvænlegu þróun víða um heim. En afstaða íslenskra stjórnvalda gagnvart þessari árás er algerlega skýr og hún er fordæmd,“ sagði hún.
Sigmundur Davíð benti þá á að fjölmörg lönd og höfuðborgir landa hafi sýnt samstöðu með Ísrael og brugðist við með því að lýsa upp stjórnbyggingar og aðrar stórbyggingar með fánalitum Ísraels. „Þetta hefur oft verið gert í gegnum tíðina, stundum kannski ekki skipt miklu máli og litið út eins og dyggðaflöggun, en þegar Þjóðverjar lýstu upp Brandenborgarhliðið í fánalitum Ísraels þá skipti það máli og flestar borgir á Vesturlöndum hafa gert slíkt hið sama. Kemur til greina að mati forsætisráðherra að lýsa upp stjórnarráðsbygginguna í fánalitum Ísraels?“ spurði hann og fékk þau svör frá forsætisráðherra og formanni Vinstri grænna, að hún hafi ekki tekið neina afstöðu til þess hvað varðar upplýsingu í fánalitum.