Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í leiðtogafundi hins pólitíska bandalags Evrópuríkja (e. European Political Community, EPC) í Granada á Spáni.
Á leiðtogafundinum var m.a. rætt um stöðuna í Úkraínu en Volodomyr Zelenskí ávarpaði fundinn meðal annarra. Rætt var um sameiginlegar áskoranir í öryggis- og varnarmálum, loftslagsmál og orkuöryggi og um þá möguleika og hættur sem felast í þróun gervigreindar, að því er fram kemur á vef forsætisráðuneytisins.
Forsætisráðherra tók þátt í hringborðsumræðum um orku-, umhverfis- og loftslagsmál og lagði þar áherslu á mikilvægi þess að Evrópuríki hraði áfram grænum orkuskiptum og tryggi áfram réttlát umskipti. Þrátt fyrir margar áskoranir á alþjóðavettvangi megi ríki heims ekki missa sjónar af markmiðum Parísarsáttmálans til að mæta loftslagsvánni sem sé stærsta viðfangsefni samtímans.
Þá átti forsætisráðherra fjölmörg samtöl við aðra leiðtoga og fundaði meðal annars með forseta Serbíu, forseta Bosníu-Hersegóvínu, utanríkisráðherra San Marinó og forsætisráðherra Mónakó þar sem rætt var um framboð Íslands til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025 til 2027.
„Stofnað var til EPC vettvangsins á síðasta ári en alls taka nú 47 ríki þátt í starfinu. Markmiðið með vettvangnum er að efla samstöðu og auka samtal og samvinnu leiðtoga Evrópuríkja vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Leiðtogafundurinn í Granada er sá þriðji sem haldinn hefur verið en fyrri fundir voru í Prag í október á síðasta ári og í Moldóvu í júní sl. Næsti fundur EPC er ráðgerður í Bretlandi vorið 2024,“ segir á vef stjórnarráðsins.