Katrín upplýst degi fyrr um hvalveiðibann en Bjarni fór grunlaus af ríkisstjórnarfundi

„Ég sat nú þennan tiltekna ríkisstjórnarfund. Málið var ekki formlega á dagskrá. Ég fór af fundinum snemma vegna þess að ég þurfti að vera í beinni útsendingu á OECD fundi með forstjóra OECD. Heyri það þá bara eftir fundinn að þetta hafi verið kynnt sem ákvörðun. Þannig að pólitíski aðdragandinn er enginn,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali við Þjóðmál fyrir nokkrum dögum spurður út í þá ákvörðun matvælaráðherra að setja tímabundið bann á hvalveiðar.

Þetta kemur fram á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, sem hefur skrifað upp hluta viðtalsins og birt. Athygli vekur að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur upplýst að henni hafi verið kynnt ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra með dags fyrirvara. Þeim upplýsingum hefur augsýnilega ekki verið komið áfram til formanns Sjálfsstæðisflokksins.

Í skriflegu svari forsætisráðherra við fyrirspurn Eyjunnar um málið segist Katrín Jakobsdóttir styðja ákvörðun Svandísar eindregið, enda hafi álit fagráðsins verið mjög afgerandi. Svo segir hún:

„Matvælaráðherra upplýsti ríkisstjórnina á ríkisstjórnarfundi þann 20. júní sl. um reglugerðarsetningu sína um að fresta upphafi hvalveiðivertíðar. Daginn áður upplýsti matvælaráðherra forsætisráðherra um þessa ráðstöfun og að hún myndi taka málið upp við ríkisstjórn. Með henni brást matvælaráðherra við áliti fagráðs um dýravelferð sem starfar samkvæmt lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og hafði tekið veiðarnar til skoðunar í kjölfar rannsóknar MAST á aðferðafræði hvalveiða.“

Bjarni Benediktsson benti í áðurnefndu viðtali við Þjóðmál á að Þingflokkur Sjálfstæðisfloksins hafi hvatt ráðherrann til að endurskoða sína afstöðu í málinu. „Fyrir okkur er það mál sem tengjast atvinnufrelsinu sem eru mjög ofarlega í huga. Það er að segja að það gangi ekki að svona ákvarðanir séu teknar ofan í vertíðina, daginn áður, vegna allra þeirra sem eiga hagsmuna að gæta,“ sagði Bjarni.

Spurður að því hvað honum þætti um ákvörðunina segir hann: „Mér finnst það ekki gott. Þá er ég hvort tveggja að tala um að mál af þessari stærðargráðu sem við ræddum þegar við gerðum stjórnarsáttmálann hvort það kæmi til greina að ríkisstjórnin myndi vinna gegn hvalveiðum. Ég svaraði því á þeim tíma. Ég sagði nei. Við ætluðum ekki að fara í stjórnarsamstarf um það og þess vegna er það ekki í stjórnarsáttmálanum. Í því ljósi er þetta alveg sérstaklega ámælisvert finnst mér.“

Spurður að því hvort málið hafi afleiðingar sagði Bjarni: „Þetta hefur haft afleiðingar. Þetta hefur ekki verið til þess fallið að þétta raðirnar í stjórnarliðinu. Það er ágreiningur um málið bæði efnislega og hvernig að því var staðið. Ef þú ert að vísa til þess hvort þetta setji stjórnarsamstarfið allt í loft upp þá myndi ég segja að það hefði gert það nú þegar.“

Viðtalið við Bjarna Benediktsson í Þjóðmálum í heild sinni má finna hér.