Katrín útilokar ekki þriðja kjörtímabilið í þessu stjórnarsamstarfi

Katrín Jakobsdóttir kveðst hlakka til að „mæta í vinnuna“ alla daga, hún hafi orðið vör við ákveðna ólgu sem komið hafi upp á yfirborðið í sumar, „sérstaklega þá kannski hjá Sjálfstæðisflokknum“ en hún er ekki á því að þessi ríkisstjórn sé neitt að fara, þrátt fyrir ört minnkandi vinsældir.

Þetta kom fram í viðtali við forsætisráðherra í Silfrinu í RÚV, en það var í fyrsta sinn sent út á nýjum útsendingartíma, á mánudagskvöldi, í gær eftir breytingar á þáttastjórnendum.

Katrín sagði mikilvægt að halda því til haga „að allan tímann hafa þetta verið þrír ólíkir flokkar. Það hafa verið ýmis konar erfið mál sem við höfum tekist hart á, okkur hefur lánast að leysa úr þeim og ég hef trú á að okkur takist það áfram.“

Katrín sagði aðspurð of mikinn viðteningarhátt liggja í spurningunni hvort hún vilji halda stjórnarsamstarfinu áfram gæfist tækifæri til þess eftir næstu kosningar. Samstarfið hafi verið óvænt á sínum tíma og hún hafi ekki síður orðið hissa þegar stjórnin fékk endurnýjað umboð síðast.

„Ég held að við verðum bara að skoða þetta betur þegar nær dregur kosningum. Það er víst nógur tími í þær.“