Lögfræðingurinn og umbótasinninn Zuzana Caputova er nýr forseti Slóvakíu, fyrsta konan til að gegna því embætti. Hún vann glæstan sigur á hinum gamalreynda diplómat og frambjóðanda stjórnarflokksins Maros Sefcovic, í seinni umferð forsetakostninganna í gær.
Fyrir ári síðan flykktust tugþúsundir mótmælenda út á göturnar í borgum Slóvakíu. Öskureiðir vegna morðsins á Jan Kuciak, ungum blaðamanni sem rannsakaði tengsl á milli ráðherra og skipulagðrar glæpastarfsemi, og kærustunni hans. Krafist var upprætingu spillingar yfirstéttarinnar.
Mótmælin grófu undan stöðu Robert Fico, forsætisráðherra og hreyfðu við þjóðinni. Þau blésu einnig kjark í Zuzana Caputova, 45 ára gamlan lögfræðing með enga reynslu af stjórnmálum, til að bjóða sig fram til embættis forseta, að því er greinir frá í The Economist.
„Ég fann skyndilega enga afsökun fyrir því, hvers vegna einhver annar en maður sjálfur ætti að taka ábyrgð á að gera breytingar,“ segir hún.
Þann 16. mars sl., eftir agaða og virðulega kosningabaráttu, fékk Caputova 41% atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna. Fyrir aðeins tveimur mánuðum síðan var fylgið hennar í eins stafs tölu.
Kosningarnar vörpuðu ljósi inn í dimm skúmaskot Slóvakíu. Í þeim leyndust íslamsfóbískir lýðskrumarar og hreinræktaðir nýnasistar. Þótt stuðningur Caputova við Evrópusambandið og NATO, loftslagsmál og réttindi samkynhneigðra staðsetji hana ljósárum frá því að vera afturhaldssöm, vonast hún til að lokka til sín kjósendur með Macronískum skilaboðum um breytingar.
Efst á dagskrá hennar sem forseta, að hennar sögn, verður að endurheimta traust borgaranna á réttarríkið.