Konur þurfa að leggja helmingi harðar að sér en karlar

„Konur þurfa að leggja helmingi harðar að sér en karlar. Það er engin spurning. Það er heilmikið pláss í heiminum fyrir meðalmennina, en heimurinn er enginn staður fyrir meðalmennsku kvenna,“ segir Madeileine Albright, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í viðtali við Financial Times.

Albright er orðin 81 árs, en hún var erindreki og fyrsti kvenkyns utanríkisráðherra Bandaríkjanna, embætti sem hún gegndi í stjórnartíð Bill Clinton á árunum 1997-2001.

Albright fæddist í Tékkóslóvakíu árið 1937, en flúði Nasistana þaðan með fjölskyldu sinni sem barn til Bretlands. Þau sneru aftur til Prag en urðu að flýja Kommúnistastjórnina árið 1948 og settust að lokum að í Bandaríkjunum.

Hún giftist auðugum fjölmiðlamanni og eignaðist með honum þrjár dætur, en þau skildu þegar Albright var 45 ára. Margir hefðu á þeim tímamótum ef til vill lagt árar í bát, en Albright sneri sér að kennslu og ráðgjöf í utanríkismálum, stýrði miðstöð um stefnumótun í málefnum ríkisins og var skipuð sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Til að byrja með tóku fáir hana alvarlega, að hennar sögn, en það breyttist allt eftir að hún studdi Michael Dukakis sem sigraði forkosningar Demókrata árið 1988. 

Vill tala við fólk sem við erum ósammála

Albright er lýst sem hörkutóli, orð sem hún mundi ef til vill ekki nota um sjálfa sig, en er ímynd sem margar ungar konur hafa af henni. Hún er konan sem ekki aðeins fékk verkefnið, heldur kom því líka af stað fyrir komandi kynslóðir. 

„Ég átti í meiri erfiðleikum með karlana í okkar eigin ríkisstjórn heldur en erlenda leiðtoga,“ rifjar hún upp og segir marga af þeim vafalaust hafa hugsað: „Hvernig varð hún eiginlega utanríkisráðherra?“, en það gerði hún með því að komast áfram í karlaheimi og breyta honum eftir sínu höfði.

Hún hefur ekki sest í helgan stein eftir að embættisverkum hennar lauk. Hún hefur gegnt stjórnarformennsku í Landsstofnun Demókrata, kennt í Háskólanum í Georgetown og skrifað heila hillu af bókum, nýjasta bókin hennar kom út í fyrra og heitir Fasismi: Varnaðarorð.

Á verkefnalista hennar nú er „að tala við fólk sem við erum ósammála“ og styðja nýja frambjóðendur.