Kópavogsmódelið: Ný hugsun í leikskólamálum

Hugleiðingu dagsins á Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi, en hún hefur verið óhrædd við að boða nýjar leiðir og hugsun í leikskólamálum. Hún hlustaði eins og margir á samtal þeirra Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar á Sprengisandi og segir: „Á Sprengisandi áðan stærir formaður Samfylkingar sig af því að Reykjavíkurborg sé með ein lægstu leikskólagjöld á landinu en skautar algjörlega framhjá því að leikskólaþjónustan í borginni er í molum og barnafjölskyldur fá ekki þá þjónustu sem Samfylkingin hefur lofað kosningar eftir kosningar.“

Setur bæjarsstjórinn fram eftirfarandi punkta um nýja hugsun í leikskólamálum í Kópavogi:

„Á leikskólum hefur fengið að viðgangast of lengi djúpstæður vandi sem hefur komið niður á börnum og foreldrum í formi lakari leikskólaþjónustu.

Viðvarandi álag, veikindi og mannekla hafa valdið því að deildir eru lokaðar heilu og hálfu dagana, jafnvel tómar sökum manneklu. Þessi staða hefur ekki síður valdið streitu og álagi hjá foreldrum leikskólabarna

Staðreyndin er sú að á sama tíma og leikskólagjöld hafa lækkað og kostnaðarþátttaka foreldra farið úr því að vera 20% í 12% hefur staðan á leikskólum ekki skánað, heldur versnað!

Samfara þessari þróun hefur skráður dvalartími reynst almennt klukkutíma lengri en raun dvalartími. Mönnun og rekstur leikskóla byggir hins vegar á skráðum dvalartíma. Þennan auka klukkutíma þarf að manna og í mikilli manneklu getur það reynst erfitt.

Kópavogsbær boðar breytta stefnu og nýja hugsun í leikskólamálum með það að markmiði að efla þjónustu við barnafjölskyldur. Áfram verður hins vegar stuðningi beint til barnafjölskyldna og leikskólagjöld niðurgreidd um 86%.

Breytingarnar tóku gildi 1. september og við erum strax farin að sjá jákvæðar breytingar:

  • Ef fram fer sem horfir verða leikskólar Kópavogs fullmannaðir í haust
  • Í fyrsta skipti er verið að opna deild á leikskóla sem ekki hefur tekist að opna í fimm ár!
  • Þriðjungur foreldra hefur stytt dvalartíma barna
  • 19% foreldra nýta sér sex klukkustundir, eða skemur, gjaldfrjálsa þjónustu – til samanburðar var hlutfallið 2% fyrir breytingar
  • Meðaldvalartími barna hefur farið úr því að vera 8,1 tímar niður í 7,5 tíma
  • Börn skráð 8 tíma eða lengur eru í dag 56% samanborið við 85% fyrir breytingar.“