Krafa um hraðafgreiðslu 14 nýrra ESB-gerða: „Innleiðing af færibandinu með fallbyssu“

Óhætt er að segja að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi brugðist ókvæða við óvæntri beiðni Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, í gær um að taka á dagskrá með afbrigðum frumvarp Guðlaugs Þórs Þórssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Bentu þingmenn stjórnarandstöðunnar á að lítið sem ekkert hafi komið frá ríkisstjórninni vikum saman, en skyndilega hafi verið skellt á borðið löngu og flóknu frumvarpi, sem líkist fremur bók en hefðbundnu frumvarpi, sem liggi svo á að samþykkja þurfi afbrigði til að taka það fyrir.

Í rökstuðningi umhverfisráðherra fyrir flýti málsins, segir að íslensk stjórnvöld hafi, frá því að tilskipanirnar tóku gildi innan Evrópusambandsins í júní 2023, unnið að upptöku þeirra í EES-samninginn. Nú liggi fyrir drög að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem verði teknar fyrir á fundi nefndarinnar 8. desember nk.

„Brussel-flokkurinn, sem við stofnun fyrir nærri 100 árum kallaði sig Sjálfstæðisflokkinn“

„Áríðandi er að tilskipanirnar verði leiddar í lög í síðasta lagi 31. desember 2023 til að gæta samræmis varðandi gildistöku á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Mikilvægt er að tiltekin ákvæði hafi verið innleidd 1. janúar 2024 en þá tekur ETS-kerfi fyrir sjóflutninga gildi og ákvæði V til bráðabirgða við lög um loftslagsmál, um takmarkað gildissvið í flugi, rennur út ásamt því að lögfesta þarf vöktunarskyldu samkvæmt hliðstæðu ETS-kerfi um losun frá byggingum, vegasamgöngum og smærri iðnaði, auk þess að tryggja hagsmuni innlendra aðila sem falla undir og munu falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra.

Því er ljóst að Alþingi er ekki gefinn mikill tími til að rýna efni frumvarpsins og minnir þetta á gagnrýni sem oft hefur komið fram í störfum löggjafarsamkundunnar undanfarin ár, að það sé einhvers konar afgreiðsla fyrir hraðastimplanir frá Brussel um mál sem geti þó haft miklar afleiðingar hér innanlands.

„Hvaða endemis della er þetta?“

„Þessari bók, það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi, sem innifelur m.a. 14 ESB-gerðir, í kaupbæti við allt annað sem þarna kemur fram, var dreift hér seinni partinn í gær. Við þingflokksformenn fengum meldingu um þetta um kvöldmatarleyti og það á að taka hana hér til umræðu með afbrigðum í dag. Það er alveg forkastanlegt að mál eins og þetta sé að koma hér inn í þingið 11 dögum fyrir áætlaða jólafrestun þingsins, með kröfu um að það sé klárað fyrir áramót. Hvaða endemis della er þetta, burt séð frá því hver afstaða þingmanna er til málsins?“ spurði Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins í gær.

Logi Einarsson, fv. formaður Samfylkingarinnar, undraðist gang málsins: „Eins og sterklega má gera ráð fyrir þá er forseta kunnugt um að hann fundar einu sinni í viku að jafnaði með þingflokksformönnum til að skipuleggja þinghaldið. Ítrekað hafa komið beiðnir frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar um það að mál komi nógu snemma inn í þingið til þess að það sé hægt að vanda vinnu við þau. Jafnframt höfum við kallað eftir því að fá að vita og heyra ef það eru einhver mál á leiðinni sem eru dagsetningarmál sem þarf að klára. Nú erum við að fá þetta risastóra mál, 56 blaðsíður, fjölmargar greinar, ofan í allt annað álag sem fylgir þessum tíma. Við þetta hlýt ég að gera athugasemd,“ sagði hann.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, gekk enn lengra og sparaði ekki stóru orðin í garð Sjálfstæðisflokksins fyrir vinnubrögð í þessu máli, sagði hann þetta vera „mestu hneisu þingsins í nærri fimm ár, að minnsta kosti“.

„Brussel-flokkurinn, sem við stofnun fyrir nærri 100 árum kallaði sig Sjálfstæðisflokkinn, ætlar nú að leggja það til að keyrðar verði í gegn 14 Evrópusambandsgerðir án eðlilegrar umræðu og þinglegrar meðferðar, mál sem varða m.a. hluti sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar höfðu varað sérstaklega við og talið með þeim erfiðustu sem EES-samningurinn hefði fært okkur. Ég efast um að jafnvel hinir hefðbundnu Evrópusambandsflokkar eins og Samfylkingin myndu standa að innleiðingu með þessum hætti og jafnvel ekki Viðreisn,“ bætti Sigmundur Davíð við og uppskar hlátur í þingsal. Enn meira var hlegið er hann bætti við: „Og herra forseti. Ég er ekki einu sinni viss um að Píratar myndu leyfa sér að ganga fram með þessum hætti.“

„Hér er ekki bara lögð til áframhaldandi innleiðing á færibandinu, hér er lögð til innleiðing með fallbyssu. Hvers vegna í ósköpunum vill þessi ríkisstjórn slá öll met í Evrópusambandsinnleiðingum og sýna meiri undirgefni gagnvart Evrópusambandinu heldur en nokkrir aðrir flokkar hafa gert, þar með talin fyrrnefnd Samfylking og Viðreisn? Undirgefni þessarar ríkisstjórnar gagnvart Evrópusambandinu virðist orðin takmarkalaus. Einhver sendi tölvupóst væntanlega á einhvern ráðherrann og rak á eftir þessu og þá er þetta keyrt hérna inn í þingið, 14 innleiðingar án eðlilegrar þinglegrar meðferðar, m.a. varðandi mál sem töldust þau erfiðustu sem frá Brussel hefðu komið að mati ráðherra í þessari ríkisstjórn. Ég bara skil það ekki, herra forseti, hvernig ég allt í einu finn mig í þeirri stöðu að flokkar sem hafa að mínu mati verið með Evrópusambandsþráhyggju árum saman eru allt í einu orðnir varfærnari hvað Evrópusambandið varðar og vilja sýna aðeins meiri festu en þessi ríkisstjórn,“ bætti formaður Miðflokksins við.

Ný gjöld á íslensk fyrirtæki

Í greinargerð með frumvarpinu sem um er ræðir, segir að þar sé lagt til að kaflar og ákvæði laga um loftslagsmál, sem fjalla um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið), verði færðir í sérlög um ETS-kerfið.

„Tilgangur með þessari breytingu er að auka skýrleika og aðgreina betur löggjöf sem fjallar um ETS-kerfið frá öðrum ákvæðum laga um loftslagsmál enda er löggjöf sem varðar ETS-kerfið eingöngu innleiðing á löggjöf sem hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Í frumvarpi þessu verða jafnframt innleiddar þrjár EES-gerðir á sviði loftslagsmála sem breyta ETS-kerfinu.

Umhverfismál hafa verið hluti af gildissviði EES-samningsins allt frá gildistöku hans og hefur tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-tilskipunin) verið ein meginstoða umhverfislöggjafar Evrópusambandsins. Tilskipun var upphaflega tekin upp í EES-samninginn og innleidd í íslensk lög árið 2007. Síðan þá hafa allar breytingar á tilskipuninni verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar í íslensk lög. Reglur ETS-kerfisins hafa gilt fyrir flugrekendur frá árinu 2012 og rekstraraðila í staðbundnum iðnaði á Íslandi frá árinu 2013 þegar álframleiðsla og járnblendi voru felld undir kerfið.

ETS-kerfið er lykilbreyta hvað varðar að ná samdrætti í losun en um 40% losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi fellur undir kerfið. Samstarf Íslands við Evrópusambandið er víðtækara en þátttaka í ETS-kerfinu því að Ísland er auk þess með sameiginlegt markmið samkvæmt Parísarsamningnum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 ásamt Evrópusambandinu og Noregi.

Í júní 2021 tilkynnti Evrópusambandið að sambandið ætlaði sér að ná hertu markmiði um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Til þess að ná því markmiði hefur Evrópusambandið endurskoðað og uppfært löggjöf á sviði loftslags- og orkumála. Hluti endurskoðunarinnar varðar breytingar á ETS-tilskipuninni en uppfært markmið felur í sér að stefnt er að 62% samdrætti 2030 í losun frá þeirri starfsemi sem fellur undir ETS-kerfið í stað 43% eins og stefnt var á í fyrra markmiði. Um er að ræða annars vegar breytingar hvað varðar flugstarfsemi (tilskipun (ESB) 2023/958) og hins vegar breytingar varðandi staðbundinn iðnað, sjóflutninga og byggingar, vegasamgöngur og smærri iðnað (tilskipun (ESB) 2023/959). Losun frá sjóflutningum verður felld undir ETS-kerfið í skrefum en frá og með árinu 2025 munu skipafélög þurfa að gera upp losun sína að hluta.

Grunnhugmynd kerfisins er að losun gróðurhúsalofttegunda frá tiltekinni starfsemi á EES-svæðinu sé háð gjaldi, sem skapi aukna hvata til samdráttar í losun, orkusparnaðar og orkuskipta. Hugsunin á bak við ETS-kerfið er sú að greiða þurfi fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi í anda mengunarbótareglunnar. Við upptöku kerfisins fengu bæði stóriðja og flugrekendur úthlutað endurgjaldslaust ákveðnum fjölda losunarheimilda sem til stóð að fækka jafnt og þétt eftir því sem tímar liðu fram. Aðilar stæðu því frammi fyrir tveimur kostum, að draga úr losun eða kaupa losunarheimildir til að bæta upp fyrir losun sína. Kerfið myndi með því móti skapa hvata fyrir þá aðila sem féllu undir það til að leita leiða til að draga úr losun og komast þannig hjá því að þurfa að leggja út fjármuni til að kaupa losunarheimildir. Dregið hefur verið úr heildarfjölda losunarheimilda í ETS-kerfinu jafnt og þétt frá upphafi kerfisins. Breytingarnar nú fela í sé að dregið verður hraðar úr heildarfjölda losunarheimilda í ETS-kerfinu en áður var gert ráð fyrir til þess að tryggja samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við sett markmið.“