Nú þegar Samfylkingin er í tilvistarkreppu líkt og systurflokkurinn, breski Verkamannaflokkurinn, velta margir flokksmenn því fyrir sér hvort verkalýðsarfleifðin hafi gleymst og erindið jafnvel sömuleiðis. Tony Blair er aftur mættur á sjónarsviðið í Bretlandi og segir flokk sinn hafa færst of mikið til vinstri; hann sé of einstrengingslegur til þess að höfða til fjöldans á miðjunni og atvinnulífið hræðist tilhugsunina um að forystumenn hans komist til valda.
Eins og áður hefur verið vikið að hér á þessum vettvangi, segja margir eðalkratar hverjum sem heyra vill að þeir geti ekki lengur hugsað sér að kjósa Samfylkinguna, sinn gamla flokk sem eitt sinn ætlaði að vera breiðfylking jafnaðarmanna –– hinn turninn í íslenskum stjórnmálum. Þeir tilheyrðu áður Alþýðuflokknum og upplifa sig nú hálf landlausa í pólitík.
Þeirra gamli foringi, Jón Baldvin Hannibalsson fv. utanríkisráðherra, hefur undanfarnar vikur dvalið í Litháen ásamt eiginkonu sinni, Bryndísi Schram, í boði litháísku þjóðarinnar. Jón Baldvin er þjóðhetja í Eystrasaltslöndunum eftir framgöngu sína í sjálfstæðisbaráttu þeirra frá Sovétríkjunum undir lok síðustu aldar, eins og flestir vita.
Krataforinginn gamli hélt tölu á Þjóðhátíðardegi Íslendinga, hinn 17. júní sl., á Íslandsstræti í Vilníus höfuðborg Litháens, og vék þar að stefnu og sjónarmiðum jafnaðarmanna, eins og Glúmur sonur hans, segir frá á fésbókinni.
Þar sagði Jón Baldvin meðal annars:
„Kratismi snýst í eðli sínu um málamiðlun á milli hinna tveggja öfga, kapítalisma og sósíalisma: markaðinn og ríkið. Við kratar höfnum óbeisluðum markaðslausnum (kapítalisma) og ægiveldi Ríkisins (sósíalisma). Við samþykkjum markað virkrar samkeppni þar sem það á við innan ramma laga, reglna og virks eftirlits. Þetta tryggir sköpun auðs og samkeppnishæfni.“