Ráðamenn í Kreml hafna því með öllu að tvífarar Pútíns létti undir með honum við skyldustörf og opinber tilefni þar sem myndir eru teknar. Dmitry Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, henti gaman að slíkum samsæriskenningum á við opnun Rússlandssýningarinnar í Moskvu í gær.
„Við eigum bara einn Pútín,“ sagði Peskov en staðfesti að margvíslegar samsæriskenningar væru uppi um þetta sem forsetaskrifstofan hefði gaman að. Svo virtist sem meintum tvíförum færi fremur fjölgandi en hitt og aðallega væri nú rifist um hvort þriðji eða fjórði tvífarinn væri mest áberandi í skyldustörfum forsetans þessa dagana.
Breska blaðið Mirror staðhæfði á dögunum að tvífarar Pútíns væru mikið notaðir þessa dagana við opinber tilefni, ekki síst af öryggisástæðum þar sem talið er að Úkraínumenn sitji um líf forsetans. Á nafnlausri rás á Telegram sem kallast Hershöfðingi SVR hefur þessu líka verið haldið fram.
Kirill Budanov, yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins, hefur líka haldið þessu fram við nokkur tækifæri á undanförnum mánuðum.
Í apríl brást skrifstofa Pútíns í Kreml heldur illa við slíkum ásökunum og sparaði Peskov þá ekki stóru orðin, en hann var léttari á því í gær og gerði grín að öllu saman. Sagði hann Pútín í frábæru formi og gæti unnið án hvíldar dögum saman. Sagðist hann geta af eigin reynslu gefið slíkar yfirlýsingar, þar sem hann hefði verið náinn samstarfsmaður forsetans um árabil.