Kristrún vill verða forsætisráðherra og vill ekki kljúfa þjóðina með umsókn að ESB

Aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki lengur á dagskrá Samfylkingarinnar og flokkurinn myndi ekki vilja fara í þá vegferð að fara af stað með mál sem ljóst er að kljúfi þjóðina. Þetta segir Kristrún Frostadóttir formaður flokksins, sem sett hefur stefnuna á forsætisráðherrastólinn í upphafi þingvetrar þegar líf ríkisstjórnarinnar hangir á bláþræði og Samfylkingin mælist langstærsti flokkurinn.

Kristrún var gestur hinnar gamalreyndu fjölmiðlakonu, Arnþrúðar Karlsdóttur, á Útvarpi Sögu í dag. Þar talaði hún um mikilvægi þess að hlusta eftir vilja þjóðarinnar og að mjög mikilvægt sé að stjórnmálamenn komi hreint fram og ávinni sér traust fólks.

„Ég er bara hreinskilin með það að ég er að bjóða krafta mína í að leiða næstu ríkisstjórn á þeim forsendum að geta skilað því sem ég lofa og ég sé ekki fram á það að það sé almenn samstaða á Íslandi um að ganga inn í Evrópusambandið.“ segir Kristrún. Aðspurð, hvort hún stefni að því að verða næsti forsætisráðherra, svaraði Kristrún því játandi.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.