Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagðist í Kryddsíldinni vera orðinn hundleiður á Klaustursmálinu og þjóðin hefði um miklu mikilvægari mál að hugsa og ræða en það. Hann lýsti í þættinum yfir skilningi á þeim sjónarmiðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, að skýra þyrfti allan bakgrunn þess að samtöl sex þingmanna voru tekin upp á Klausturbar, menn ættu rétt á að leita réttar síns og ekki ætti að leggjast gegn því.
Klaustursmálið kom töluvert til umræðu í Kryddsíldinni á Stöð 2 í dag og beindist athyglin nokkuð að Sigmundi Davíð í þættinum. Hann ítrekaði að viðkomandi þingmenn, sem setið hefðu á Klausturbar, hefðu margsinnis beðist afsökunar á framkomu sinni, en benti jafnframt á að málið varðandi lykilatriði á borð við mannréttindi og þau væru algild og ættu um alla, líka stjórnmálamenn sem væru úti að skemmta sér. Hann sagðist margoft hafa tekið þátt í viðlíka umræðum og hefðu átt sér stað á Klaustri og kvaðst reiðubúinn að gera grein fyrir þeirri upplifun sinni á fundi með Siðanefnd Alþingis, ef eftir því yrði leitað.
Þegar umræðan barst að núverandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, lýsti Bjarni því yfir að núverandi ríkisstjórn sé miklu betri en sú sem hann veitti forystu í fyrra, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði ríkisstjórnina ekki svara kalli almennings, hún stæði vörð um þau kerfi sem þyrfti að breyta. Það væri ekki dygð að tengja saman flokka yst á ásum stjórnmálanna og þegar mismunandi litum væri blandað saman yrði niðurstaðan grár litur eða brúnn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG, henti ummæli Loga á lofti og benti þá á að brúnn væri fallegur litur, hann væri litur jarðarinnar og jarðtengingar.