Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, mótmælir vinnubrögðum við framkvæmd nýrra útlendingalaga hvað varðar þjónustumissi þeirra, sem hlotið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, að 30 dögum liðnum.
Í ályktun fundarins segir að framkvæmdin megi ekki verða til þess að fólk sé skilið eftir á götunni.
„Slíkt er grafalvarlegt og í hróplegu ósamræmi við það samfélag sem við viljum búa í. Um leið er ítrekað mikilvægi þess að samkvæmt lögunum má ekki fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna ásamt alvarlega veikum einstaklingum og fötluðum með langvarandi stuðningsþarfir. Grundvallarmannréttindi þeirra sem missa þjónustu verður að tryggja. Lokaðar flóttamannabúðir þar sem fólk er geymt þar til hægt er að senda það úr landi er ekki lausnin á þessari stöðu.
Flokksráðsfundurinn hvetur til þess að ávallt þegar lög er varða málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd eru endurskoðuð verði mannúð höfð að leiðarljósi og grundvallarmannréttindi virt.“
Þetta ber að skilja sem svo að Vinstri græn vilji endurskoða nýgerð lög um útlendinga og stíga skref til baka. Dómsmálaráðherra hefur hins vegar boðað frumvarp um enn hertari aðgerðir á landamærunum á þingi, til að mynda um lokaðar flóttamannabúðir, eða lokað búsetuúrræði, eins og hún kallar það.
Athygli vekur að ályktun VG er þvert á málflutning þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundi í gær. Þar hvatti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fundarmenn til að klappa fyrir Jóni Gunnarssyni og Guðrúnu Hafsteinsdóttur, núverandi og fyrrverandi dómsmálaráðherrum flokksins, og sagði að flokksmenn stæðu allir með þeim í framkvæmd nýju laganna.