„Langt síðan þingflokkurinn hefur verið jafn samstíga og nú“

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur nýlokið tveggja daga vinnufundi, þar sem lögð var áhersla að þjappa hópnum saman og stilla saman strengi fyrir komandi þingvetur.

Þingflokkurinn er með tveggja daga vinnufund á hverju ári seinni hluta ágúst. Þar er farið yfir verkefni komandi þings og vinna þingflokksins skipulögð. Staða flokksins greind sem og samstarfið í ríkisstjórn.

Viljinn heyrði í Óla Birni Kárasyni, formanni þingflokksins, til að fá fregnir af fundinum.

„Við áttum góða tvo daga að Laugum í Sælingsdal – skemmtilega og sérlega gagnlega. Ég held að mér sé óhætt að halda því fram að langt er síðan þingflokkurinn hefur verið jafn samstíga og nú, eftir opnar og hreinskiptar umræður, góðan mat og harða samkeppni um fjöregg og tvísýna spurningakeppni,“ segir hann og vísar undir lokin til hópeflis sem virðist af samskiptamiðlum hafa verið vel heppnað og fjörlegt.

Gagnrýni sjálfstæðismanna á stjórnarsamstarfið hefur verið áberandi undanfarnar vikur og kallað eftir því að flokkurinn vinni freker eftir grundvallarstefnu sinni og láti finna meira fyrir sér í stjórnarsamstarfinu. Þess má geta að Flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman til fundar laugardaginn 26. ágúst nk. á Hilton hótel Nordica. Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur það hlutverk að marka stjórnmálastefnu flokksins ef ekki liggja fyrir ákvarðanir landsfundar.

Þá er þess og að geta, að Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, stendur fyrir fögnuði í tilefni af Menningarnótt, á morgun laugardaginn 19. ágúst, í Valhöll, Háaleitisbraut 1 frá kl. 17:30-19:00.

Eyþór Arnalds, f.v. oddviti borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, lítur við og ávarpar gesti, en hann hefur látið að sér kveða í tónlistarlífi þjóðarinnar um árabil eins og flestir vita, í bland við störfin í stjórnmálunum.

Eyþór mun ræða um hægri stefnuna og listina og leika tónlist fyrir samkomuna.