Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, hyggst leggja fram tillögu í skipulagsráði borgarinnar á morgun, þar sem nafnanefnd borgarinnar verður falið að breyta heiti Garðastrætis í Kænugarðsstræti.
„Með þessu væri verið að minna á tengsl Íslands og Úkraínu en Kiev, höfuðborgin hefur löngum verið kölluð Kænugarður,“ segir Eyþór, en rússneska sendiráðið stendur við Garðastræti og bústaður sendiherra Rússa er við Túngötu spölkorn frá.
Fram eru komnar sambærilegar hugmyndir í Danmörku, þar sem aðsetur rússneska sendiráðsins í Kaupmannahöfn gæti verið að fá nýtt heimilisfang. Það stendur nú við Kristianiagade með tilvísun í fornt heiti höfuðborgar Noregs, en nú vilja ýmsir að nafninu verði breytt í Ukrainegade.
Rússar hafa mótmælt þeim hugmyndum og líklegt er að tillaga Eyþórs falli þeim ekki í geð heldur. Hvort skipulagsráð lætur það sig einhverju varða, er svo annað mál.
? Referring to the ongoing discussion, the Russian Embassy would like to remind, that Kristianiagade bears the former name of Norway’s capital city and symbolizes historical bonds and good relationships between Denmark and Norway.
— Embassy of Russia, DK (@RusEmbDK) March 1, 2022