Þegar líður að þingstörfum staðfestir ný skoðanakönnun Maskínu fyrir Stöð 2, að hávaðinn milli ríkisstjórnarflokkanna og opinberar deilur um ýmis mál í sumar, kemur ekki úr tómarúmi. Algjört fylgishrun blasir við stjórnarflokkunum og Ólafur Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, segir ólíklegt að ríkisstjórnin springi en þó sé ekki hægt að fullyrða neitt. Hávaðinn hafi vissulega verið mikill og nánast engar líkur séu á að þessi stjórn haldi áfram þriðja kjörtímabilið.
Niðurstöður skoðanakönnunar Maskínu er nokkuð sláandi. Ríkisstjórnin hefur ekki mælst með lægra fylgi frá kosningum og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mælst með minna fylgi hjá Maskínu, í 13 ár.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 17,6 prósent í könnuninni. Framsóknarflokkurinn með 9,2 prósent og Vinstri græn með 6,4 prósent. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarinnar er því 33,2 prósent, og hefur ekki mælst lægra en þegar gengið var til kosninga í september 2021.
Samfylkingin mælist langstærsti flokkur landsins, með 29,1 prósent. Píratar mælast fengju rúm þrettán prósent, Viðreisn níu og hálft prósent, Miðflokkurinn tæp átta prósent og Flokkur fólksins með 5,9 prósent. Sósíalistaflokkurinn mælist undir fimm prósentunum og næði ekki þingmanni.
Rætt var við Ólaf Þ. Harðarson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær og þar lýsti hann mati sínu á stöðunni:
„Það sem gerst hefur síðan í kosningunum 2021 er að fylgið hefur hrunið af öllum stjórnarflokkum. Og núna undanfarið hafa tölurnar verið þannig að Vinstri græn og Framsókn hafa tapað um það bil helmingi fylgisins sem þau fengu 2021 og núna er Sjálfstæðisflokkurinn að tapa hátt í þriðjungi þess fylgis sem hann fékk þá.
Og ef við skoðum samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þá var það ríflega 54 prósent í kosningunum. Núna er það komið niður í 33 prósent. Stjórnarflokkarnir hafa tapað 21 prósenti sem er auðvitað gríðarlega mikið,“ sagði Ólafur.
Hann bætti því við að það kæmi „frekar á óvart“ ef ríkisstjórnin springur nú, þótt mjög gusti í stjórnarsamstarfinu, en sagði svo: „Ég held að það séu nánast engar líkur á að þessi stjórn haldi áfram jafnvel þó hún héldi velli, sem verður að teljast mjög ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn hafi áhuga á því eftir næstu kosningar að halda áfram í stjórnarsamstarfi.“