„Ég held að þetta sé rétt. Það er lítill hópur af vinstrimönnum sem virðist telja að þeir séu dómarar um hvað sé siðferðilega rétt,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, á fésbók og fjallar þar um færslu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem birti í dag pistil á vefsíðu sinni þar sem því er velt upp hvort afleiðingar Klaustursmálsins hefðu orðið aðrar ef þingmennirnir sex sem náðust á upptöku hefðu tilheyrt þingflokki Samfylkingar og Vinstri grænna.
Helgi Magnús segir að þessi fámenni hópur virðist telja að þeir geti í nafni pólitísks rétttrúnaðar hrópað niður þá sem eru þeim ósammála.
„Úthrópað fólk sem rasista eða eitthvað annað ef það neytir réttar síns til tjáningarfrelsis um viðkvæm málefni. Þetta fólk skapar þá mestu hættu sem stafar að lýðræðinu á Íslandi. Vegna þess að tjáningarfrelsið er undirstaða alls góðs sem við eigum í dag og allra framfara í framtíðinni.·
Hann vitnar til frægra orða Voltaires, sem sagðist kunna að fyrirlíta skoðanir fólks en vera reiðubúinn að láta lífið fyrir rétt þess til að halda þeim fram.
„Þetta sem er einn af hornsteinum tjáningarfrelsis okkar og grunnur að lýðræðisskipulagi okkar. Þessir gapuxar eigin pólitísk réttrúnaðar eru ekki mikils virði ef við látum þá ekki stjórna okkur. Þeir hafa einfaldlega fundið leið til að koma eigin pólitískum skoðunum í þennan búning til að komast undan gagnrýni og tala niður andstæðinga sína. Því miður hefur verulegur hluti háskólasamfélagsins hoppað á þennan vagn. Þetta fólk er ekkert meira en hræsnarar sem enginn ætti að virða viðlits. Auðvitað á fólk að gæta að orðum sínum en come on höfum við enga fjöruna sopið?,“ segir Helgi Magnús.
Er ekki sama hver er?
Pistillinn á síðu Sigmundar Davíðs er ómerktur og Sigmundur Davíð vill ekki upplýsa um höfund hans í samtali við Vísi.
Höfundar pistilsins er ekki getið á síðunni og vildi Sigmundur ekki upplýsa um nafn hans þegar fréttastofa leitaði eftir því. En í pistlinum, sem ber yfirskriftina „Er sama hver?,“ eru í upphafi gefnar forsendur sem eru keimlíkar málsatvikum Klaustursmálsins. Þar er sögð saga af sex þingmönnum, fimm konum og einum karli, „sem fara saman á veitingahús eins og löng hefð mun vera fyrir hjá þingmönnum og drekka sumir meiri bjór en góðu hófi gegnir.“
Þingmennirnir ímynduðu náist síðan á hljóðupptöku þar sem þeir viðhafa orðfæri „þar sem lofgjörð um pólitíska andstæðinga er ekki ríkjandi þema.“ Í ljós komi að sá sem tók samræðurnar upp hafi verið ungur Sjálfstæðismaður, sem fer í kjölfarið með upptökurnar til fjölmiðla.
Í kjölfarið býður greinarhöfundur upp á tvær mismunandi atburðarásir og spyr lesendur hvor þeirra sé líklegri, í kjölfar forsendanna sem gefnar voru í upphafi pistils.