Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála vera fordæmisgefandi og að það megi búast við því að það verði mjög stór hópur hælisleitenda frá Venesúela sem fái endanlega synjun um viðbótarvernd hér á landi. Þetta fólk muni þurfa að yfirgefa landið og miklir fólksflutningar því framundan.
Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest niðurstöður Útlendingastofnunar varðandi breytta stöðu í Venesúela eftir langa bið og ríkisborgarar Venesúela geti snúið til baka. Stór hópur fólks, á annað þúsund manns að minnsta kosti, hefur beðið eftir niðurstöðum kærunefndarinnar undanfarna mánuði.
Kærunefndin tók fyrir umsóknir þriggja einstaklinga, en enn er að vænta þess að nefndin úrskurði um barnafjölskyldur í hópi umsækjenda.
Dómsmálaráðherra sagði í fréttum RÚV, að gríðarlegur fjöldi fólks frá Venesúela hafi nú þegar snúið til baka og búast megi við því að fjöldi fólks velji sjálfviljuga brottför til síns heimaríkis. Þar með muni það njóta stuðnings íslenskra stjórnvalda til þess.