„Eitt mikilvægasta verkefnið núna er að tryggja afkomu og öryggi fólks í Grindavík. Mikilvægt er að varðveita ráðningarsambönd atvinnurekenda við starfsfólk sitt á meðan óvissan er jafnmikil og hún er nú,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Ég og fjármálaráðherra vinnum nú að frumvarpi um tímabundinn stuðning ríkisins til að auðvelda atvinnurekendum að greiða starfsfólki sínu laun sem vinnur á því svæði sem rýmt hefur verið vegna almannavarnarástands í og við Grindavík.“
Málið var rætt í ríkisstjórn í morgun og unnið er að frumvarpinu í góðu samtali við aðila vinnumarkaðarins. „Horft verður til reynslunnar af úrræðum frá kórónuveirufaraldrinum. Ég stefni á að frumvarpið verði tilbúið sem fyrst og þannig að viðkomandi atvinnurekendum sé auðveldað að greiða laun um næstu mánaðarmót.
Ég hef heyrt í bæjarstjóra Grindavíkur, Fannari Jónassyni, og látið hann vita af þessari framvindu. Ég dáist að æðruleysi Grindvíkinga og samtakamætti þjóðarinnar á þessum erfiðu tímum,“ bætir Guðmundur Ingi við og segir að hugur sinn sé hjá Grindvíkingum.