Misheppnaðir þöggunartilburðir áróðursdeildar

Atli Þór Fanndal. Mynd/Skjáskot ruv.

Svonefnd Íslandsdeild Transparency International er merkilegt fyrirbæri. Virðist í reynd ekki annað en batterí utanum stjórnmálaskoðanir Atla Þórs Fanndal, fyrrverandi blaðamanns sem starfaði um skeið með Pírötum. Ríkisútvarpið er ótrúlega viljugt að kalla Atla Þór til sem faglegan og óháðan álitsgjafa þegar rætt er um spillingu, sem er eins og hvert annað grín þegar betur er að gáð.

Viljinn virðist eitthvað hafa farið í skapið á Atla Þór í dag, því hann skrifaði stórfurðulega athugasemd á fésbókina, þar sem frétt um ræðu Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, er gagnrýnd. Er Viljinn gagnrýndur fyrir að kosta áróður SFS, birta fréttatilkynningar samtakanna athugasemdalaust og annað í þeim dúr.

Nema þetta er allt kolrangt hjá framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Transparency. Það var engin fréttatilkynning send út, hvað þá heldur að Viljinn hafi birt eina slíka athugasemdalaust. Ritstjóri Viljans sótti einfaldlega Sjávarútvegsdaginn í Hörpu í gær og hlýddi á orð framkvæmdastjóra SFS og birti um það frumunna frétt. Fullkomlega eðlileg vinnubrögð hjá fjölmiðli, nokkuð sem gerist á hverjum degi um allan heim í sambærilegum tilvikum.

Staðreyndin er sú að áróðursdeildir á borð við Íslandsdeild Transparency International eru ekkert annað en það. Atli Þór er ekkert að berjast gegn spillingu; hann vill ekki að fólk með aðrar stjórnmálaskoðanir en hann sjálfur fái að tjá þær og vill alls ekki að fjölmiðlar segi frá andstæðum sjónarmiðum. Í stjórn þessara samtaka eru t.d. Jóhann Hauksson, fv. upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Indriði H. Þorláksson sem var aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Þetta eru enn ein samtök vinstri manna sem ráðast að þeim sem hafa aðrar stjórnmálaskoðanir en þeir sjálfir.

Ef Atli Þór hefði snefil af áhuga eða þekkingu á pólitískri spillingu, ætti hann að staðnæmast við það að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ræðst í dag á Morgunblaðið í aðsendri grein, blaðið sem með sjálfstæðri rannsóknarblaðamennsku hefur flett ofan af lygavef og lögbrotum ráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins.

Það er stórmál og alvarlegt að ráðherra hefni sín með slíkum hætti fyrir óþægilegan fréttaflutning og ráðist að sjálfstæði fjölmiðla. Allt þetta myndi Atli Þór Fanndal í heilagri vandlætingu segja ef Svandís Svavarsdóttir væri ekki ráðherra að hans skapi og Morgunblaðið blað sem hann þolir ekki.

En það gerir hann ekki, heldur ræðst hann að Viljanum fyrir að skrifa fréttir um fólk sem honum er illa við. Með orðfæri sem ekki ber vott um mikið jafnvægi eða góða dómgreind. Því Atli Þór er bara í pólitík.

Flóknara er það nú ekki…