Morgunblaðið fagnar í dag 110 ára afmæli sínu og er ástæða til að óska afmælisbarninu og starfsfólki þess, núverandi og fyrrverandi, til hamingju með tímamótin.
„Á þessum tímamótum væri vel hægt að nefna fjölmargt en ritstjóri blaðsins, frændi minn Haraldur Johannessen, sagði það sem mestu máli skiptir við starfsmenn sem í morgun héldu upp á hækkandi aldur blaðsins,“ skrifar Kristján Johannessen, blaðamaður á Morgunblaðinu á fésbókina í tilefni dagsins:
„Sama hvar þú ert í framleiðslukeðjunni þá væri Morgunblaðið ekki það sem það er án þíns framlags. Fyrirtækið er eingöngu það sem það er vegna fólksins sem þar starfar. Vegna þín erum við hér í dag að fagna þessum glæsilega áfanga!”
Kristján birtir með afmæliskveðju sinni mynd af prentplötu af fyrstu forsíðu Morgunblaðsins sem kom út 2. nóvember 1913. Var platan afhjúpuð á 60 ára afmæli blaðsins, árið 1973, en þá var afi hans Matthías Johannessen ritstjóri.