Morgunblaðið er harðort í leiðara dagsins í garð matvælaráðherra og forstjóra Samkeppniseftirlitsins, enda hefur verið flett ofan af blekkingum og ráðabruggi beggja og hreinum lögbrotum, eins og áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur sagt berum orðum í úrskurði.
Bendir blaðið á að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sé loðin í svörum, svo ekki sé fastar að orði komist, þegar hún er spurð um hvor aðilinn hafi haft frumkvæði að verktakasamningi SKE og ráðuneytisins um stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE, hafi reynt allt til að fela slóðina, en rangfærslur hans hafi verið afhjúpaðar með gögnum málsins. Hann haldi því nú fram að Samkeppniseftirlitið hafi haft frumkvæði að slíkri kortlagningu, ráðherrann segi að ráðuneyti hennar og eftirlitið hafi af tilviljun fengið sömu hugmynd á sama tíma, en nú síðast komi fram á sviðið Sveinn Agnarsson, formaður stjórnar SKE, í langþráðu viðtali og hann staðfesti beinlínis, það sem lengi hafi verið vitað: „Matvælaráðuneytið fól okkur að vinna verkefnið og skoða útgerðina gegn greiðslu.“
Svo voru mörg orð. Ekki aðeins er ljóst og þarf ekki Morgunblaðið til að draga þær ályktanir, að ráðherra og forstjóri einnar valdamestu eftirlitsstofnunar landsins, hafi sagt ósatt. Heldur liggur og fyrir og staðfest af áfrýjunarnefnd samkeppnismála, að það getur ekki talist í verkahring sjálfstæðrar stofnunar að sinna erindrekstri fyrir ráðherra, hvað þá koma fram eins og pólitísk herdeild, í viðleitni hennar til að umbylta fiskveiðistjórnarkerfinu.
Morgunblaðið bendir á að matvælaráðherra eigi eflaust eftir að standa reikningskil orða sinna og gerða gagnvart Alþingi, en hitt blasi við að Páll Gunnar hafi í máli þessu ekki einungis misbeitt valdi sínu, heldur hafi hann og fleiri í yfirstjórn SKE, „hvað eftir annað farið með rangt mál gegn betri vitund. Afvegaleitt almenning. Á því leikur ekki minnsti vafi lengur og það kallar á tafarlausa lausn.“
Undir það skal tekið. Og bent á að forstjóri SKE er ekki vanur að taka þá sem hann telur brotlega við lög neinum vettlingatökum. Á virkilega annað við um hann sjálfan? Spyrja má: Hver á að gæta varðanna?